Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:11:44 (8148)

2001-05-18 17:11:44# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um vexti og verðtryggingu og eru ýmis ákvæði í því sem mér finnast athugunarverð. Það sem mig langar mest til að minnast á í sambandi við frv. er IV. kaflinn sem heitir Verðtrygging sparifjár og lánsfjár. Töluvert var rætt um þetta í 1. umr. og sýndist sitt hverjum hvernig ætti að verðtryggja krónuna.

Í 13. gr. er talað um að verðtryggja eigi í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og í 14. gr. er talað um að heimilt sé að vera með þessar verðtryggingar, en það sem miðað er við er verð á matvælum eða neyslunni sem á að ákveða hvernig lánin hækka. Þetta ákvæði um verðtryggingu og það að sérstök verðtrygging skuli vera á lánsfé hefur sætt mikilli gagnrýni.

Mig langar til að geta þess, herra forseti, að frv. til laga lagt var lagt fram átta sinnum, að lágmarki, um að afnema ætti verðtryggingu. T.d. á 118. löggjafarþingi, sem var fyrir sjö árum, var búið að leggja þetta fram í átta skipti. Þá voru þrír hv. þm. á því sem enn eru þingmenn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Jón Kristjánsson, hæstv. heilbrrh., og hv. þm. Árni R. Árnason.

Sagt hefur verið og það hefur reynst þannig að verðbótaþátturinn í lánskjaravísitölunni eða lánskjaravísitalan hafi leitt marga út í miklar ógöngur og að skuldir þeirra hafi aukist langt umfram það sem þeir gátu í raun og veru staðið undir. Á þeim tímum sem við lifum er sagt að efnahags\-ástandið í landinu sé nokkuð stöðugt. Nú er lagt fram frv. af hæstv. ríkisstjórn um Seðlabankann sem á að tryggja að verðbólgan fari ekki úr böndum og menn hafa verið mjög ánægðir með það. Fyrst við munum fá svona góð lög um Seðlabanka sem hefur það hlutverk að halda verðbólgunni í skefjum og hún verði aldrei meiri en einhver ákveðin lág tala, þá langar mig að spyrja hvort það sé ekki óþarfi, fyrst við erum með svona góða og sterka ríkisstjórn, að vera með slíkt ákvæði í lögunum um verðtryggingu og láta þá bara einfalda vexti gilda í þessu.

[17:15]

Ég spyr: Hvað hefur breyst til þess að ekki megi sleppa verðtryggingunni og menn miði verðlagningu fjár við vexti en ekki eingöngu verð á einhverjum vörum sem eru mjög breytilegar? Við getum t.d. spurt að því í allri umræðunni um matvörumarkaðinn á undanförnum mánuðum þar sem sagt er að fákeppni ríki. Reyndar kom glögglega fram í hádegisfréttum að hér ríkir fákeppni og sagt hefur verið að fákeppni ríki á matvörumarkaði sem hafi leitt til óeðlilega hás vöruverðs. Þá er þetta háa vöruverð farið að ákveða hve námslánin hækka mikið, hve húsnæðislánin hækka mikið. Ef sú staða kæmi upp að einhverju olíufélagi dytti í hug í taugaveiklun að hækka bensín fram úr öllu hófi hefði það áhrif á lánskjaravísitöluna. Þetta tel ég ekki vera sanngjarnt og ekki rétta viðmiðun.

Auðvitað er nauðsynlegt að fé þess sem leggur 100 kr. í banka rýrni ekki en aðferðirnar til að tryggja það verða að vera réttar og sanngjarnar, bæði gagnvart þeim sem ætlar að ávaxta féð og líka gagnvart öðrum sem fá lán. Ég er hissa á því að ekki hafi verið meiri umræða um verðtrygginguna vegna þess að mjög margir telja að þeir hafi farið illa út úr henni á ósanngjarnarn hátt vegna þess að viðmiðin voru ekki rétt, gáfu ekki rétta mynd. Lánin hækkuðu sífellt og launin stóðu í stað á tímabili. Það varð til þess að fólk missti jafnvel eigur sínar. Þessa umræðu finnst mér að hafi vantað í þessa umfjöllun. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra bankamála hvort ekki hafi komið til tals að ræða eitthvert annað fyrirkomulag á því að sleppa verðtryggingunni og setja eitthvað annað í staðinn sem væri sannara eða réttara. Svo segja sumir sem nota t.d. ekki áfengi og tóbak: Af hverju skyldu lánin mín hækka þegar vín eða tóbak hækkar? Eða jafnvel: Af hverju skyldu lánin hækka ef kaffi hækkar og ég drekk ekki kaffi? Þannig er hægt að velta hlutunum upp á ýmsa vegu.

Hvernig á að verðleggja fjármagnið? Það er vandi ef við búum við óstöðugleika. En þegar við búum við stöðugleika eins og hæstv. ráðherrar halda fram finnst mér ástæðulaust að leggja fram þetta frv. með sérstakri klásúlu um verðtryggingu. Mér finnst það bera eilítinn keim af ótta um að ástandið í efnahagsmálunum er ekki eins tryggt og menn vilja vera láta.