Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:22:05 (8149)

2001-05-18 17:22:05# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég skrifa undir nefndarálit með frv. með fyrirvara. Ég tel að frv. sé að mörgu leyti ágætt og til framfara. Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að 6. gr. Ég hef þó efasemdir um aðrar greinar en gagnrýni mín snýr fyrst og fremst að 6. gr.

Frv. gengur út á að opna enn meira fyrir frjálsræði um ákvörðun vaxta. Þróunin hefur verið á þá leið á undanförnum áratugum. Árið 1960 voru sett lög sem kváðu á um bann við okri, okurvöxtum sem tók á dráttarvöxtum og öðrum ákvæðum sem snerta vextina, en á þessum lögum var gerð breyting árið 1987 og opnað fyrir heimildir um samninga um vextina. Eftir sem áður voru gildandi ákvæði í lögum um heimildir Seðlabanka til að setja þak á vextina, m.a. dráttarvextina, og verið er að rýmka þær heimildir með þessum lögum. Það er gert m.a. í 6. gr. Þar segir að dráttarvextir skuli vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana auk 11% álags, vanefndaálags nema um annað sé samið. Seðlabankanum er þó heimilt að ákveða annað vanefndaálag að lágmarki 7% og að hámarki 15%.

Ef þessari reiknireglu er dreift á það vaxtastig sem við búum við núna kæmi í ljós að hámarkið fyrir dráttarvexti væri nú 25,9%. Ef við flettum upp í vaxtatöflum í dag, sem má finna í blöðunum, m.a. Morgunblaðinu, þá kemur fram að dráttarvextir eru núna 23,5%, þ.e. þeir eru lægri en það þak sem kveðið er á um í frv. Ef litið er aftur í tímann kemur í ljós að þeir hafa verið enn hærri, 24%, og leiddi til mikillar gagnrýni þegar þeir fóru í það hámark. Ástæða er til að gagnrýna þessa háu dráttarvexti nú og teldi ég mikilvægt að hafa þakið mun lægra. 23,5% er mjög há prósentutala. Það þýðir að einstaklingur eða fyrirtæki sem tekur 1 millj. að láni og lendir í dráttarvöxtum þarf að greiða á ári 235 þús. kr. fyrir þessa milljón. Menn geta sjálfum sér um kennt, kann einhver að segja, að takast á herðar slíkar skuldbindingar án þess að vera borgunarmenn en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þeir sem þurfa að axla þessar þungu vaxtabyrðar eru iðulega lágtekjufólk sem rís ekki undir þeim byrðum sem það hefur ekki átt annarra kosta völ en axla, t.d. vegna húsnæðiskaupa, og við þekkjum án efa öll dæmi um slíkt. Þetta er fólkið sem á síðan að ganga til samninga við lánveitandann um vaxtakjörin en í 6. gr. laganna er kveðið á um það sérstaklega að heimilt sé að semja innan þessara viðmiðunarmarka. Mér finnst það vera allt of há prósenta, allt of hátt vaxtaálag sem þarna er kveðið á um. Svo sannarlega hefði þetta ekki staðist lögin frá 1960, lögin gegn okri, okurlögin sem svo voru nefnd.

Þetta er megingagnrýni mín á frv. Þar er ég sammála þeim hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Karli V. Matthíassyni. Um hitt hef ég meiri efasemdir sem lýtur að verðtryggingarþætti laganna. Ég tel mikilvægt þegar fjallað er um vexti að skoða raunávöxtunarstigið. Það sem máli skiptir fyrir lántakandann er hverjar vaxtabyrðarnar eru í krónum talið, ekki hvernig þær eru skilgreindar. Staðreyndin er sú að þegar málin eru skoðuð hafa rannsóknir leitt í ljós að verðtryggð lán bera lægri raunávöxtun en óverðtryggð lán. Rannsóknir sýna að þarna er 2--3% munur. Önnur könnun sem ég hef séð hefur sýnt ívið minn mun, 1--1,5%. En munurinn er þessi. Ástæðuna tel ég vera þá að lánveitandinn telur sig öruggari hafi hann fjármagnið verðtryggt en ef hann þarf að taka áhættu af verðbólgu. Þá hefur hann stillt upp hærri vaxtakröfu gagnvart þeim sem þiggur lánið. Þetta finnst mér skipta meginmáli, hver eru hin raunverulegu lánskjör.

Ég tók á sínum tíma þátt í baráttu svokallaðs Sigtúnshóps, sem barðist mjög gegn vaxtaokrinu, en við gættum þess jafnan að binda okkur ekki við skilgreiningar heldur við veruleikann í þessu efni og spyrja: Hverjar eru vaxtabyrðarnar, hver er raunávöxtunin? Það sem mér finnst vera ámælisvert er þegar í senn er krafist verðtryggingar á láni og breytilegra vaxta.

Nú tíðkast víða erlendis að lánastofnanir veita lán á breytilegum vöxtum. Þetta er gert til að geta brugðist við verðbreytingum í samfélaginu, verðbólgunni. Verði hún mikil vill lánveitandinn áskilja sér rétt til að hækka gjaldið sem hann tekur fyrir að veita lánið og hækkar vextina. Hér hafa menn allt í senn, axlaböndin og beltið. Þeir hafa verðtrygginguna og þeir hafa jafnframt möguleikann til að ákveða breytilega vexti. Mér hefur stundum fundist svolítið skondið þegar Seðlabankinn er að guma af því að hann vilji beita vöxtum sem eins konar stjórntæki í efnahagslífinu til þess að slá á þenslu. Til þess að slá á eftirspurn eftir lánum hækkar hann vextina og segir sem svo: Það er líklegt til að sporna við aukinni lántöku. Mér finnst tvennt í þessu sem þurfi að hyggja að: Í fyrsta lagi er hluti lántökunnar eiginlega nauðungarlántaka. Þá vísa ég til fólks sem er að kaupa húsnæði eða fyrirtækja sem eru að halda rekstri sínum gangandi og eiga ekki annarra kosta völ en að ráðast í lántöku. Hitt finnst mér ekki síður stórt mál að vekja athygli á að vaxtahækkanir á lánum sem bera breytilega vexti hækka lánin sem voru tekin fyrr á árunum, sem voru tekin aftur í tímann, þannig að ákvörðun Seðlabankans horfir ekki aðeins fram á við heldur einnig aftur á bak. Mér finnst oft vanta í umræðuna hvað menn eru að gera fyrri lántakendum með þessum ráðstöfunum. Þessu má líkja við mann sem fer og kaupir fisk úti í fiskbúð fyrir tiltekna upphæð og þegar hann kemur daginn eftir, þá segir fisksalinn: ,,Ég hef ákveðið að þú skuldir mér 20 kr. Við hækkuðum verðið aftur á bak.`` Það er í rauninni þetta sem er að gerast með breytingum á vöxtum og breytilegum lánum. Gagnrýni mín er fyrst og fremst að hafa í senn breytilega vexti og verðtryggingu.

En varðandi verðtrygginguna sem slíka finnst mér skipta öllu máli að búa til kerfi sem tryggi sem lægsta raunávöxtun fjármgansins.

Herra forseti. Þetta er megingagnrýni mín við þetta frv. Ég hefði kosið að sett yrði lægra þak á dráttarvextina en gert er með þessu frv.