Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:46:40 (8154)

2001-05-18 17:46:40# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kemur sér hjá því að svara beint því sem um er spurt. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra um kjörvaxtaflokkana, hvort hún telji ekki eðlilegt að setja ákveðin efri og neðri mörk þegar um væri að ræða svo mikinn vaxtamun milli hæstu og lægstu vaxta sem bankinn býður eftir því hvort um er að ræða trygga lántakendur að mati bankans eða ekki. Finnst hæstv. ráðherra ekki 4,5% of mikið þó að hún telji að það eigi að vera einhver munur þarna á? Er ekki orðið of langt gengið í þessu efni?

Síðan er það auðvitað útúrsnúningur hjá ráðherranum um meðalstór fyrirtæki á mælikvarða Evrópusambandsins. Auðvitað er mikill munur hér á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og stórum fyrirtækjum. Við erum auðvitað að tala um fyrirtæki innan lands. Auðvitað er munur á Eimskip og Flugleiðum eða einhverjum litlum fyrirtækjum hjá sjálfstæðum atvinnurekendum svo dæmi sé tekið.

Hæstv. ráðherra upplýsir það og þá liggur það fyrir að hún er verðtryggingarsinni eins og hún segir. Hún vill viðhalda verðtryggingunni en það er verið að ganga lengra í þessum efnum í 15. gr. en við höfum gengið áður, þ.e. að Seðlabankanum er núna heimilt en ekki skylt að ákveða lágmarkstíma verðtryggingarinnar. Það er auðvitað spor aftur á bak. Ég segi það, herra forseti, að hæstv. ráðherra er um leið að lýsa vantrú á efnahagsstefnu eigin ríkisstjórnar með því að vilja halda svona fast í verðtryggingarákvæðin og ganga lengra í því efni, festa okkur meira í viðjar verðtryggingarinnar en verið hefur. Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi, herra forseti. Því hefur alla tíð verið haldið fram af þeim sem vilja stuðla að því að fara út úr þessari verðtrygginu, og þá er ég að tala um stjórnmálamenn, að þegar aðstæður skapast til þess og þegar stöðugleikinn hefur verið viðvarandi í einhvern tíma væri rétt að taka stór skref út úr verðtryggingunni. Hér er verið að læsa sig inn í verðtryggingunni og ganga raunverulega lengra að læsa okkur inni í henni en verið hefur.

En ég vil gjarnan fá svar varðandi kjörvaxtaflokkana, herra forseti. Ég legg áherslu á það.