Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:56:50 (8160)

2001-05-18 17:56:50# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, LB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég tók til máls um þetta frv. í 1. umr. og ef ég man rétt var hæstv. viðskrh. ekki við heldur mælti hæstv. utanrrh. fyrir málinu. Þá ræddum við nokkuð almennt um verðtrygginguna. Við ræddum almennt um að hvergi er jafnvíðfeðm verðtrygging í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og hér. Við ræddum almennt hvort hér færi ekki að koma sú staða í efnahagslífinu að ekki þurfi að ríkja sérstakt verðtryggingarkerfi fyrir fjármagn hér á landi. Umræður við 1. umr. voru ágætar. Menn skiptust á skoðunum og almennt var það viðhorf uppi að menn vildu a.m.k. horfa mjög til þess í framtíðinni að leita leiða til að hægt væri að afnema verðtrygginguna.

Hér er verið að fjalla um frv. um vexti og verðtryggingu og hér er m.a. verið að rýmka samningsréttinn um dráttarvexti og ýmislegt annað.

Ég vil einnig nefna það sérstaklega, af því að hæstv. ráðherra kom að því í ræðu sinni áðan þar sem hún fjallaði aðeins um okurlán, að ég tel að á engan sé hallað þó því sé haldið fram með rökum að 20--23% dráttarvextir hljóti að teljast okurlán. Það geti varla verið hægt að gefa því önnur nöfn og þó að okurlögin svokölluðu séu ekki lengur við lýði held ég að ekki sé hægt að gefa þessari vaxtaprósentu annað nafn en okurlán.

Virðulegi forseti. Megintilefni þess að ég bað um orðið var að ég tók þátt í þessari umræðu við 1. umr. um frv. Hæstv. viðskrh. var þá ekki á vettvangi og því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra tveggja lítilla spurninga vegna þess að það er einfaldlega þannig hvernig sem á það er litið að íslensk löggjöf verndar fjármagn betur en víðast hvar annars staðar. Það er hvergi jafnvíðfeðm verðtrygging og hérna. Þetta hefur stundum verið kallað almannatryggingakerfi fjármagnseigenda. Þess vegna vildi ég, virðulegi forseti, beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi hvort hæstv. ráðherra sjái flöt á því núna í nánustu framtíð og hvaða aðstæður þurfi að vera uppi til að það komi til álita að afnema verðtrygginguna.

Í öðru lagi hefur legið inni um nokkuð langt skeið frv. til laga um ábyrgðarmenn sem hefur stundum verið kallað einn þátturinn af þessu svokallaða almannatryggingakerfi fjármagnseigenda. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort trú hennar á efnahagslífinu, trú hæstv. ráðherra á stöðugleikann sé slík að í nánustu framtíð sé annars vegar hægt að afnema verðtrygginguna og hins vegar að lögfesta skýrar reglur um ábyrgðarmenn því að það er í raun og veru eina færa leiðin ef menn vilja takast á við það sérstæða ástand sem er hér á landi að því er varðar ábyrgðarmenn.