Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:04:49 (8163)

2001-05-18 18:04:49# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. er löglærður maður er ástæða til þess, finnst mér, að ræða við hann um atriði sem hann ræddi um áðan.

Í fyrsta lagi er þetta spurning um hagsmuni lántakenda, gagnvart verðtryggingu t.d. Það liggur algerlega fyrir að raunverulegur fjármagnskostnaður af óverðtryggðum lánum hefur verið 1--1,5% meiri en af verðtryggðum lánum. Hvað í ósköpunum þýðir þá fyrir hv. þm. að koma og tala um að hagsmunir lántakenda felist í því að afnema verðtryggingu? Hv. þm. verður að hafa tölurnar fyrir framan sig og ekki tala um að leggja sérstakan viðbótarskatt á lántakendur með því að afnema verðtryggingu.

Annað sem hv. þm. talar um er að íslensk löggjöf verndi fjármagn. Staðan er sú að dráttarvextir á Íslandi eru óeðlilega lágir miðað við vextina yfirleitt og það er stórkostlega óeðlilegt eins og hv. þm. veit gjörla ef staðan í svona málum er sú að skuldara sé í hag að draga að greiða af lánum vegna þess að hann er að fá ódýrasta fjármagnið sem hann á völ á kannski með því að greiða dráttarvexti í stað þess að borga skuldir sínar.