Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:09:41 (8166)

2001-05-18 18:09:41# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Um seinna atriðið get ég tekið undir með hv. þm. að það er óeðlilegt að menn borgi lægri vexti með því að draga að greiða af lánum. Ég get alveg tekið undir það. Það er óeðlilegt að menn borgi lægri vexti með því að standa ekki við sínar samningsskuldbindingar. Undir það get ég vissulega tekið.

En það sem ég var hins vegar að ýja að með verðtrygginguna og óverðtryggðu lánin er einfaldlega þetta: Verðtryggingin hefur verið botninn. Menn hafa ekki verið að keppa sín á milli um að veita lán. Menn hafa ekkert farið neðar en þetta. Það sem ég á við er að það er ekki alveg hægt að draga svona skýrar ályktanir. Af því að staðan í dag er eins og hún er þá geta menn ekki dregið svo skýrar ályktanir af því og sagt: Ef verðtryggingin yrði afnumin mundi það þýða vaxtahækkun. Það segir sig ekkert sjálft vegna þess að menn hafa litið á þetta sem botninn og hafa ekki keppt um fjármagn og aldrei farið neðar en þetta. Þetta er næstum því eins og rautt strik. Það er það sem ég er að segja þegar ég segi að ekki sé sjálfgefið að þó að verðtryggingin yrði afnumin, þ.e. tryggingakerfið, þyrftu menn að borga hærri vexti af sínum lánum.

Virðulegur forseti. Svo verð ég að segja það líka alveg eins og er að vextir á Íslandi eru allt of háir.