Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:37:23 (8176)

2001-05-18 18:37:23# 126. lþ. 128.13 fundur 648. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (atvinnurekstrarleyfi) frv. 81/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vildi halda því til haga nú þegar þetta mál er komið til 2. umr. að við 1. umr. málsins vakti hv. þm. Jóhann Ársælsson athygli á því að hann hefði áhyggjur af hvaða áhrif þetta frv., sem formaður efh.- og viðskn. hefur mælt fyrir við 2. umr., gæti haft. Hann taldi að hugsanlega gæti frv. haft þau áhrif að erlendir verkamenn færu að stunda atvinnu á Íslandi í gegnum einkahlutafélög sem væru stofnuð til að vinna eingöngu beint fyrir atvinnurekendur og létta þeirri kröfu og skyldu sem atvinnurekendur hafa gagnvart starfsmönnum sínum og taldi hann að með þessu væri ákveðin hætta á því að einkahlutafélög sem stofnuð væru af útlendingum sem koma til landsins til að vinna hér og bjóða þjónustu sína með þeim hætti hefðu kannski ekki sambærilega stöðu og mundu standa jafnfætis verkafólki á íslenskum markaði. Spurði hv. þm. hvort svo gæti verið að fjölskylduhlutafélög sem stofnuð eru til þess að koma fjölskyldu í vinnu á Íslandi gæti farið að undirbúa og stunda þjónustu og vinna á Íslandi undir merkjum slíkra hlutafélaga. Ég taldi ástæðu til að ganga úr skugga um að þetta frv. hefði ekki þau áhrif.

Fulltrúi ráðuneytisins sem kom á fund nefndarinnar sagði að það væri frekar verið að þrengja að verktakastarfsemi heldur en hitt og í áliti sem ég fékk frá ASÍ sem mér barst í hendur út af þessu atriði og þessu áhyggjuefni þingmannsins, þá segir ASÍ um það, með leyfi forseta:

,,Frumvarpinu virðist vera ætlað að þrengja heimildir útlendinga til þess að koma til landsins með því m.a. að loka fyrir það að útlendingar taki hér land sem verktakar, enda eru útlendingalögin þannig að til þess að fá dvalarleyfi þurfa útlendingar að hafa sönnun fyrir því að geta framfært sig.`` Eða atvinnuleyfi með öðrum orðum.

Herra forseti. Ég vildi halda þessu til haga í umræðunni að þetta hafi sérstaklega verið kannað og eftir því sem við erum upplýst um, bæði af fulltrúa ráðuneytisins og af ASÍ, þá er ekki þörf að hafa áhyggjur af sem hv. þm. drap á við 1. umr. málsins.