Opinber innkaup

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:40:16 (8177)

2001-05-18 18:40:16# 126. lþ. 128.14 fundur 670. mál: #A opinber innkaup# (heildarlög, EES-reglur) frv. 94/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um opinber innkaup.

Með frv. er verið að skýra framsetningu gildandi reglna um opinber innkaup. Verið er að safna saman í einn lagabálk þeim ákvæðum sem um slík innkaup hafa gilt.

Ekki eru miklar efnisbreytingar í sjálfu sér sem frv. hefur í för með sér en gagnsemi þess felst fyrst og fremst í því að nú eru þessar lagareglur aðgengilegar fyrir hvern sem er.

Nefndin sendi málið til umsagnar allmargra aðila og fékk fulltrúa flestra þeirra á sinn fund. Frá því er greint í nál. hverjir þetta voru.

Meiri hluti nefndarinnar gerir nokkrar brtt. við frv. Þær eru í einum sex liðum.

1. brtt. nefndarinnar er við 3. gr. og er svohljóðandi: ,,Við 3. gr. Við a-lið 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.``

Tillagan snýst um að skilgreina gildissvið laganna þannig að það sé klárt að sjálfseignarstofnun svo dæmi sé tekið sem starfar með almannahagsmuni fyrir augum falli ekki undir þessi lög ef tekjur hennar eru á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila.

Í 2. lið brtt. er gert ráð fyrir því að í 4. gr. falli 2. málsl. 6. mgr. brott. Hann er um að ráðherra geti einnig ákveðið að ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki geri sérleyfissamning einungis að undangengnu útboði sem hann setur nánari reglur um. Gerð er tillaga um að sá málsliður falli brott.

Í 3. lið brtt. er gert ráð fyrir breytingum á 11. gr. frv. en hún fjallar um jafnræði bjóðenda. Gert er ráð fyrir að heimilt sé ,,samkvæmt lögum þessum að áskilja í útboðsgögnum að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á lögmætum kvöðum.`` Um þetta var allmikið rætt en spurningin er hvort óheimilt sé að gera búsetu á tilteknu svæði að skilyrði fyrir þátttöku í opinberum innkaupum, þ.e. að ekki megi mismuna bjóðendum á grundvelli búsetu þeirra eða staðsetningar.

Það sem málið snýst um er að meiri hluti nefndarinnar telur að það sé fullkomlega málefnaleg ástæða til að ákveða að opinber stofnun, hluti hennar eða starfsemi á hennar vegum skuli vera staðsett á ákveðnum stað og að slík pólitísk ákvörðun hindri á engan hátt að það sé gert að kvöð að þjónusta eða vara sé afhent á slíkum stað.

Í 4. lið brtt. er gerð tilraun til breytinga á 12. gr. frv. Það er að viðmiðunarmörkin eiga að vera hærri samkvæmt tillögu nefndarinnar þannig að öll innkaup á vörum sem eru 5 millj. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10 millj. skuli bjóða út. Það er með öðrum orðum verið að hækka viðmiðunarmörkin frá því sem er í frumvarpsgreininni að því sem snýr að vörum og þjónustu.

Síðan er gert ráð fyrir að 4. málsl. 1. mgr. falli brott, þ.e. sem fjallar um að ráðherra geti þá ákveðið að ríkisstofnun/ríkisfyrirtæki geri þessa samninga að undangengu útboði. Þarna er verið að vísa til þjónustu sem talin er upp í I. viðauka B. Tillaga er um að þetta falli niður.

Enn fremur er í þessum lið brtt. gert ráð fyrir að bætist við ný málsgrein sem tekur á þessu atriði sem segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki einungis gera sér leyfissamninga og samninga um kaup á þeirri þjónustu sem talin er upp í I. viðauka B í samræmi við reglur sem ráðherra setur með reglugerð.``

Í 5. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 26. gr. þar sem fjallað er um forsendur fyrir vali tilboðs. Nefndin gerir ráð fyrir að 1. mgr. orðist þannig að í útboðsgögnum skuli ,,tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs með eins nákvæmum hætti og framast er unnt. Í forsendum má ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verða á grundvelli gagna sem bjóðendur leggja fram eða með öðrum hlutlægum hætti.``

Við 75. gr. er gerð tillaga til breytingar af hálfu meiri hlutans þannig að þar bætist við nýr málsliður sem gerir ráð fyrir að við skipan nefndarinnar, þ.e. kærunefndarinnar, skuli ,,ráðherra hafa samráð við aðra opinbera aðila sem og helstu samtök sem hafa hagsmuna að gæta við framkvæmd laganna.``

Enn fremur verði í þessari grein gert ráð fyrir að það sé ekki bara fjmrn. heldur líka aðrir opninberir kaupendur sem geta farið fram á að kærunefnd útboðsmála gefi ráðgefandi álit á tilteknum innkaupum þótt engin kæra hafi borist. Tillaga meiri hlutans er sem sagt að þessi heimild sé víkkuð út þannig að hún nái til fleiri aðila en fjmrn.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði á frv. Þetta frv. er hið mesta þarfaþing og vonandi fær það afgreiðslu frá Alþingi fyrir þinglok.