Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 20:07:20 (8184)

2001-05-18 20:07:20# 126. lþ. 128.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[20:07]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði treystum við okkur til að greiða atkvæði gegn þessu fráleita frv. Landssími Íslands hefur skilað 20 þúsund milljónum, 20 milljörðum, í ríkiskassann á undangengnum áratug. Hagnaður Landssímans fyrir árið 2000 var 6,5 milljarðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði og þó var stofnunin aflögufær.

Ríkisstjórnin ætlar að afsala þjóðinni þessari gullgerðarvél án þess að tryggt sé að hér skapist styrkur samkeppnismarkaður og án þess að tryggt sé að allir landsmenn sitji við sama borð. Ég vek athygli á þeim ummælum hæstv. samgrh. er hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður getur ekki komið fram eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínu út á sem hæstu verði.``

Síðan sagði hæstv. ráðherra:

,,Það verð sem nú er á eignarhlutum í símafélögum gefur fjárfestum raunhæfa von um að fjárfesting í öflugum og vel reknum félögum geti skilað góðum arði.``

En hvað með núverandi eiganda, þjóðina? Það er dapurlegt að hún skuli eiga eins slappa hagsmunagæslumenn og málsvara og raun ber vitni.