Skipan opinberra framkvæmda

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 20:38:54 (8197)

2001-05-18 20:38:54# 126. lþ. 128.15 fundur 671. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (heildarlög) frv. 84/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[20:38]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. og brtt. um frv. til laga um skipan opinberra framkvæmda. Hér er á ferðinni ný heildarlöggjöf um skipan opinberra framkvæmda, hið mesta þarfamál.

Nefndin sendi þetta mál til umsagnar margra aðila. Fulltrúar nokkurra þeirra komu til fundar við nefndina svo sem getið er um í nál. á þskj. 1333.

Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu til breytinga á málinu. Það er fyrst og fremst við 7. gr., að 1. tölul. 7. gr. orðist svo:

,,Fullnaðaruppdrættir og tæknileg verklýsing á þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er, skrá um efnisþörf, nákvæm kostnaðaráætlun um verkið, lýsing á ábyrgðarsviði og verkaskiptingu þeirra aðila sem standa að framkvæmd, tímaáætlun um framkvæmd þess og greiðslu- og fjáröflunaráætlun fyrir framkvæmdartímabilið.``

Þetta verður að vera hluti af áætlunargerð um framkvæmdir. Og enn fremur:

,,Fjármálaráðherra skal skilgreina kröfur um gerð og framsetningu kostnaðaráætlana og kynna þær fyrir ríki og ríkisaðilum.``

Virðulegi forseti. Um það var allmjög rætt í nefndinni að nauðsynlegt væri í tengslum við opinberar framkvæmdir að skilgreina afar vel hver beri ábyrgð á hverju og hvert hlutverk hvers framkvæmdaraðila og forsvarsaðila framkvæmdar er við hvern verkþátt fyrir sig. Þess vegna er þessu bætt inn.

Enn fremur telur meiri hlutinn rétt að leggja áherslu á að fjmrh. skilgreini eins og kostur er kröfur um gerð og framsetningu kostnaðaráætlana og kynni það fyrir ríki og ríkisaðilum en nokkuð hefur borið á því að kvartað sé undan því að kostnaðaráætlanir séu mismunandi, farið sé eftir mismunandi aðferðum og þær séu yfirleitt nokkuð á reiki hjá ríkisaðilum.

Síðan er gerð brtt. við 20. gr. sem gengur út á það að Framkvæmdasýsla ríkisins geti falið einkaaðilum að annast einstök verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt ákvæðum greinarinnar. Þetta er í framkvæmd svona en rétt er talið af hálfu meiri hlutans að hnykkja á þessu í frv.

Hæstv. forseti. Að svo mæltu gerir meiri hluti nefndarinnar þá tillögu að þetta mál verði samþykkt með þessum breytingum.