Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:00:36 (8206)

2001-05-18 22:00:36# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði ekki betur en hv. þm., formaður efh.- og viðskn., sé að leggja til að þessu frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar því allt sem hann talaði um undir þeim formerkjum að mætti einfalda og færa út á markað með ýmsum hætti gildir nákvæmlega um þær brtt. sem hann er að færa hér fram. Ég trúi ekki öðru en að menn geti komið því sæmilega fyrir fyrir lítið eða ekkert gjald að gefa út leyfi til flugeldasýninga til að mynda. Ég bið því hv. þm. að vera orðum sínum og skoðunum trúr og draga frv. til baka þannig að menn geti endurmetið þetta.

Ég skal vera til viðræðu um það og ég neita að trúa öðru en því varðandi útgáfu leyfisbréfa af ýmsum toga og umfangsmikinn þjónustuþátt sem útgáfa vegabréfa og ökuskírteina hlýtur að vera, að ekki sé notið aðstoðar þeirra sem eru í slíkri útgáfu samhliða. Ég kann hins vegar ekki á það en tel samt sem áður í fljótu bragði óhjákvæmilegt að opinberir aðilar votti svona pappíra með einum eða öðrum hætti. Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig vegabréfaútgáfa ætti að fara öðruvísi fram. Einnig eru ákveðnir annmarkar á þessu. Ég sé heldur ekki hvernig virk samkeppni á þessum markaði ætti að fara fram. Ég sé það ekki í hendi mér. En þetta er ekki aðalatriði málsins.

Mig langar að heyra í hæstv. fjmrh. um kjarna málsins. Ég kalla eftir því að hann geri okkur glögga grein fyrir því hvaða viðbótartekjur komi af þeim breytingum sem hér eru lagðar til og einnig hvort hann telji eðlilegt og sjálfsagt að nettótekjur ríkissjóðs af þessu dæmi sem ég nefndi, af vegabréfum og ökuskírteinum, nemi tugum og hundruð millj. kr. og að aukatekjur ríkissjóðs séu í raun orðinn tekjuöflunarþáttur ríkissjóðs en ekki endurdgjald fyrir veitta þjónustu.