Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:14:54 (8208)

2001-05-18 22:14:54# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, Frsm. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:14]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nál. minni hluta efh.- og viðskn. kemur mjög skýrt fram að fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. leggjast ekki gegn því að ákveðið gjald sé tekið fyrir þá þjónustu sem veitt er af ríkinu. Það sem við erum hins vegar að gagnrýna í nál. --- við höfum ekki tafið afgreiðslu þessa máls og ég veit að hv. formaður efh.- og viðskn. getur borið vitni um að við höfum alls ekki tafið afgreiðslu þess --- það sem við erum að segja er að eðlilegt sé að kostnaðurinn, þ.e. gjaldtakan endurspegli raunkostnað þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni og út á það gekk sú þáltill. sem var samþykkt 1993 og hv. þm. Jóhann Ársælsson flutti. Hún gekk í raun út á það að fara þyrfti fram heildarendurskoðun á þessum gjöldum. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði. Gjaldtakan var ákveðin með reglugerðum. Síðan féllu dómar á síðasta áratug þess efnis að þessu yrði að breyta. Þess vegna var gjaldtakan færð inn í lög og því vorum við sammála. En það er ekki það sama og að með því hafi verið tryggt að hún endurspegli raunkostnað þjónustunnar sem veitt er hverju sinni. Við teljum bara og það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar að það þurfi að fara yfir alla þessa gjaldtöku í heild sinni og við nefnum út á hvað frv. gengur. Við gerum það í álitinu okkar þannig að ég tek ekki til mín það sem hæstv. ráðherra var að tala um áðan, að við værum að leggja stein í götu frv. Ekki neitt slíkt kemur fram í nál., alls ekki. Það fyrirkomulag sem var hér um árið 1990 og áður er alls ekki til fyrirmyndar og engum til sóma sem að því stóð.