Tollalög

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 22:27:21 (8211)

2001-05-18 22:27:21# 126. lþ. 128.18 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[22:27]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og tillögu til breytingar frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um tollamál.

Meginefni þessa frv. er að auka við tollkvóta og auka heimildir til lækkunar eða niðurfellingar á tollum. Brtt. nefndarinnar hafa í meginatriðum þann tilgang að leitast við að það framsal valds sem felst í lögunum sé í meira samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins en núverandi ákvæði hafa verið. Þess vegna gerir nefndin þá tillögu að ákvörðun landbrh. um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verðs og/eða magntolls skuli ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði sé til staðar á innanlandsmarkaði. Hundraðshlutar tolls hverrar vöru skulu vera hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama skapi eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar.

Landbrh. skal við ákvörðun á hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.

Megintilgangurinn með þessu er að gefa ráðherranum þá forskrift að sú ákvörðun sem hann tekur um tollabreytingar eða innflutning eða kvóta sé gerð á eins málefnalegum forsendum og hægt er miðað við þær aðstæður sem eru á þessum markaði.

Síðan var um það rætt í nefndinni hvernig ráðherrann mundi beita þessu. Ekki er ætlunin að ráðherrann beiti þessu ákvæði af einhverjum geðþótta. Þess vegna segir í nefndaráliti að nefndin gangi út frá því að nýta að fullu þær heimildir sem honum væru veittar, þ.e. að ákvarðanirnar séu á eins faglegum grunni og unnt er. Að sjálfsögðu er alltaf matsatriði þegar menn eru að ræða um eða velta því fyrir sér hvað sé hæfilegt verð eða hvað sé nægilegt framboð og aldrei er hægt að skera úr um það endanlega hvað er jafnræði á markaði. En aðalmálið er að reyna að koma því þannig fyrir að þetta séu sem faglegastar ákvarðanir og sem minnstur geðþótti í þessu. Þess vegna hefði ekki verið við hæfi að í nál. stæði að nefndin hvetti ráðherra til þess annaðhvort að nýta heimildirnar í botn eða að fara varlega eða eitthvað slíkt vegna þess að með því hefði nefndin verið að gefa þau skilaboð að það væri matskennt eða háð vilja ráðherrans hverju sinni hvað hann gengi langt í því að fara eftir þessum faglegu sjónarmiðum. Þess vegna skiptir máli að þannig sé gengið frá þessu að það framsal sem í þessu felst til ráðherrans byggist sem allra mest á þeirri málefnalegu vinnu sem þarf að eiga sér stað og það sé eins málefnalegt mat lagt á hvað sé nægilegt framboð, hæfilegt verð eins og kostur er og eitthvert málefnalegt mat sé lagt á það hvað sé jafnræði á milli innlendrar framleiðslu og innflutnings.

Virðulegi forseti. Ekki er víst að þetta framsal gangi upp ef í hart væri farið en í vinnu sinni lagði nefndin á sig að reyna að leitast við að koma því þannig fyrir að framsalið færi fram á þann hátt að það væri háð málefnalegum sjónarmiðum en væri ekki geðþóttaákvörðun.