Tollalög

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:16:25 (8217)

2001-05-18 23:16:25# 126. lþ. 128.18 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:16]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál og ítarlegt um frv. Það hefur hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gert ágætlega á undan. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hún sagði.

Þessu frv. er ætlað að veita landbrh. aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum sem unnt er að flytja inn á lægri tollum eða án tolla. Í brtt. sem efh.- og viðskn. gerir við frv. eins og það var lagt fram upphaflega er skilgreint með hvaða hætti hæstv. landbrh. skuli bera sig að. Ákvörðun hans um lækkun tolla skuli ráðast af því hvort nægjanlegt framboð sé af viðkomandi vörum á hæfilegu verði á innanlandsmarkaði. Tollar skulu hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama marki eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar.

Landbrh. skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli erlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti. Þetta er fullkomlega í samræmi við tillögur nefndar sem hæstv. landbrh. setti á laggirnar undir lok aprílmánaðar til að fjalla um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsa og garðávaxta. Þetta er fyrsti liðurinn í tillögum nefndarinnar sem hæstv. ráðherra hefur forgöngu um að hrinda í framkvæmd. Í máli fulltrúa nefndarinnar sem komu á fund efh.- og viðskn. Alþingis kom fram að það hefði verið einhugur um að fara svona fram.

Allir þekkja aðdraganda þessa máls, alvarlegar ásakanir um hringamyndun í heildsöluverslun og tollahækkanir á innfluttri vöru um miðjan marsmánuð. Þetta var tilefni þess að ýmis samtök í landinu ályktuðu um þessi efni. Reyndar rigndi yfir mjög hörðum mótmælum, t.d. frá Neytendasamtökunum. Meðal þeirra sem létu málið til sín taka voru heildarsamtök launafólks en í ályktun sem Alþýðusamband Íslands sendi frá sér í apríl segir m.a.:

,,Þá gerir Alþýðusamband Íslands kröfu til þess að kerfi innflutningshafta og ofurtolla á ávexti og grænmeti verði endurskoðað frá grunni með hagsmuni neytenda og framtíðarhag framleiðenda að leiðarljósi. Alþýðusamband Íslands gerir kröfu til þess að koma að þeirri vinnu til að verja hagsmuni sinna umbjóðenda og markmið þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á vettvangi aðildarsamtaka þess.``

Hér er lögð áhersla á að leitast verði við að lækka verð á þessari vöru með hagsmuni neytenda að leiðarljósi og jafnframt verði áhersla á framtíðarhagsmuni framleiðenda.

Í ályktun sem BRSB sendi einnig frá sér í aprílmánuði segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnarfundur BSRB, haldinn 27. apríl 2001, hvetur til þess að markvisst og af yfirvegun verði leitað leiða til að lækka verð á ávöxtum og grænmeti. Í því samhengi þarf að huga að samspili tolla og álagningar í dreifingu og smásölu. Mikilvægt er að jafnframt verði unnið að því að efla og treysta innlenda framleiðslu á þessu sviði. Það er áhyggjuefni og algjörlega óforsvaranlegt hvernig neytendur hafa verið leiknir með samráði og einokun í dreifingu á þessum mikilvægu neysluvörum.

Stjórn BSRB telur mikilvægt að spornað verði við hringamyndun og samráði í vörudreifingu og margvíslegri þjónustu.``

Hjá báðum þessum samtökum, bæði hjá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, er lögð á það rík áhersla að hugað verði að framtíðarhagsmunum framleiðenda ekki síður en að hagsmunum neytenda til skamms og langs tíma. Ég legg einnig áherslu á það sem fram kemur í ályktuninni frá BSRB, að tekið verði á þessum málum markvisst og af yfirvegun en ekki í neinu fljótræðiskasti. Ég mundi vilja sjá niðurstöður í þessu máli þá fyrst að tryggt væri að framtíðarhagsmunir íslenskra framleiðenda yrðu tryggðir. Mér finnst skipta mjög miklu máli að svo verði gert en ekki hrapað að fljótræðisniðurstöðum.

Herra forseti. Á þetta vildi ég leggja áherslu en undir lokin vil ég lýsa yfir efasemdum mínum um réttmæti þess að færa ákvörðun tolla frá landbrn. yfir í fjmrn., einfaldlega vegna þess, eins og kemur reyndar fram í þessu frv. og brtt. efh.- og viðskn., þ.e. að taka á tillit til aðstæðna í greininni innan lands við ákvörðun á tollum. Það er eðlilegt að sá aðili sem einnig hefur með höndum samningsgerð á þessu sviði á alþjóðavettvangi hafi einnig þessar ákvarðanir á sinni hendi.

Herra forseti. Ég fagna því að frv. þetta skuli komið fram og ítreka að það er í samræmi við niðurstöðu þeirrar nefndar sem fjallað hefur um þessi mál. Hana skipa fulltrúar frá samtökum launafólks, ASÍ, BSRB, frá atvinnulífinu, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi garðyrkjubænda og Bændasamtökum Íslands.