Raforkuver

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:29:00 (8221)

2001-05-18 23:29:00# 126. lþ. 128.49 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:29]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gleymdi að geta þess, sem er ánægjulegt, að Orkuveita Reykjavíkur hefur sýnt forsjálni. Þessi stækkun hefur farið í mat á umhverfisáhrifum. Ég þarf ekki að útskýra það að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði setjum okkur ekki á móti því að virkja aflið í þessu landi. Það höfum við aldrei sagt. Við höfum hins vegar verið andvíg stóriðjuáherslum og mengandi málmbræðslum. Hins vegar hefur aldrei komið fram í málflutningi okkar að við gætum ekki hugsað okkur virkjanir, það er ekki svo og hefur aldrei verið sagt af neinum okkar sex þingmanna, að við getum ekki hugsað okkur að virkja íslensk fallvötn eða gufuafl.

Hins vegar er forkastanlegt að við skulum vera með stórar verksmiðjur keyrðar á olíu meðan framleidd er mjög ódýr orka við borgarmörkin. Svo ég minnist í því sambandi á Rarik hafa verið gefnar út opinberar tölur sem gera ráð fyrir að kílóvattstundin í Grensdal eða Grændal gæti kostað um 90 aura. Það er náttúrlega spottprís miðað við verðið til iðnfyrirtækja og heimila á svæðinu, ég tala nú ekki um á Rarik-svæði. Þetta eru áherslur sem við þurfum að skoða og ræða í þessu samhengi.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki óþrjótandi auðlind. Það kemur fram í frv. sjálfu að hér þarf að endurskoða málið að 30 árum liðnum.