Raforkuver

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:30:47 (8222)

2001-05-18 23:30:47# 126. lþ. 128.49 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Afstaða vinstri grænna í þessu máli verður að vera skýr. Ég hlustaði á hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson lýsa því yfir við 1. umr. þessa máls að hann hefði sterka fyrirvara við málið. Ástæðan sem hann gaf var mjög einföld. Hann sagði að það væri alveg ljóst að orkan sem byggðist á þessu 30 megavatta afli ætti að fara til stóriðju á Grundartanga, nánar tiltekið til þess að stækka Norðurál. Hv. þm. sagði þá að orkuna ætti að nýta í mengandi málmbræðslu. Hv. þm. kemur núna og styður málið, en lýsti því samt sem áður yfir í ræðu sinni áðan að hann gerði sér grein fyrir því að í gegnum Landsvirkjun muni þetta fara í stóriðju og það sem hann kallaði líka mengandi málmbræðslur.

Ef vinstri grænir eru í prinsippinu á móti mengandi málmbræðslum eða stóriðju þá getur ekki verið að þeir treysti sér til þess að styðja mál þar sem verið er að vinna orku til þess að stækka t.d. álverið á Grundartanga. Hv. þm. hefur lýst því yfir í ræðu sinni að hann viti að orkan á að fara til þess og þar með er hann með stuðningi sínum við þetta mál að lýsa því yfir að hann er ekkert í grundvallaratriðum á móti þeirri stækkun.