Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:41:24 (8228)

2001-05-18 23:41:24# 126. lþ. 128.50 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv. 40/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mig langar til að blanda mér í þessa umræðu því að hún hefur verið að mínu mati mjög á villigötum og ástæða er til þess að hið rétta komi í ljós.

Í umræðum um fjárhagsvanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum hefur verið gengið út frá því að þær 2.760 millj. sem kæmu í hlut sveitarfélaganna af andvirði orkubúsins upp á 4,6 milljarða, þ.e. ef sveitarfélögin kjósa að selja sinn hlut í orkubúinu þá mundu þessar 2.760 millj. sem sveitarfélögin fengju í sinn hlut fara til að greiða úr fjárhagsvanda viðkomandi sveitarfélaga og gera þeim kleift að standa við lögbundnar skyldur sínar og snúa vörn í sókn. Skuldir sveitarfélaganna eru m.a. við Lánasjóð sveitarfélaga, Landsbankann, Byggðastofnun og enn fremur við Íbúðalánasjóð.

Þáttur húsnæðismála í söluandvirði Orkubús Vestfjarða hefur verið hugsaður þannig að gerð yrðu upp vanskil við Íbúðalánasjóð vegna félagslegs húsnæðis ef þau eru fyrir hendi. Eitt sveitarfélag á Vestfjörðum sem er þó aðþrengt, Bolungarvík, hefur t.d. alltaf staðið í skilum við Íbúðalánasjóð. Eftir því sem ég veit best hefur Ísafjarðarbær gert stórátak nýlega til þess að hreinsa borðið varðandi Íbúðalánasjóð og ég held að Ísafjörður sé kominn í skil við Íbúðalánasjóð.

Ég skipaði nefnd til að fjalla um félagsleg húsnæðismál sveitarfélaga á öllu landinu. Hún hefur lokið þeim áfanga sem snýr að rekstrarvanda leiguíbúða og innlausnaríbúða sem ekki hefur tekist að selja á almennum fasteignamarkaði. Tillögur þessarar nefndar miða að því að leita að nýjum lausnum á vanda sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða. Nefndin tók fyrst fyrir Vestfirði, í fyrstu umferð, og lagði til að stofnuð yrðu eignarhaldsfélög til að kaupa félagslegar íbúðir í eigu sveitarfélaga og leigja þær út eftir því sem markaðsaðstæður leyfðu. Í framhaldi af tillögum nefndarinnar um Vestfirði var ákveðið að skoða þessi mál á landinu öllu í heild. Að þessari vinnu áttu aðild fulltrúar sveitarfélaganna og þar á meðal bæjarstjórinn á Ísafirði.

[23:45]

Þessi nefnd setti upp módel sem ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um eða lýsa í örstuttu máli. Ef farið yrði eftir tillögum nefndarinnar og sett upp svona módel á Vestfjörðum eða annars staðar þar sem við vanda er að stríða vegna íbúða í félagslega kerfinu og við litum sérstaklega á Vestfirði og hvernig þeir pössuðu inn í þetta módel, þá þyrftu sveitarfélög á Vestfjörðum að leggja fram í peningum eitthvað í kringum 470 millj. til þess að koma viðkomandi eignarhaldsfélögum í rekstrarhæft form. Þessar 470 millj. eru ekki nema 17% af þeim peningum sem ætlast er til að Vestfirðingar fái í sinn hlut ef öll sveitarfélögin selja hlut sinn í orkubúinu og þessum 17% yrði ráðstafað til þess að endurskipuleggja félagslega húsnæðiskerfið. Það er allt og sumt sem verið er að tala um. Það eru vanskilin og síðan, ef svo vill verkast, 17% af upphæðinni til þess að koma félagslega húsnæðiskerfinu í rekanlegt form á Vestfjörðum. Sveitarfélögin þyrftu ekkert endilega að snara þeim peningum út strax, það er fjarri því. Þau gætu gert þetta smám saman.

Vandamál þessara sveitarfélaga eru þrenns konar. Í fyrsta lagi stendur rekstur leiguíbúðanna ekki undir kostnaði. Staðan á fasteignamarkaði gerir ekki kleift eða ekki er hagkvæmt að selja innlausnaríbúðir. Nú er til meðferðar og er á dagskránni lítið frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál þar sem m.a. er opnuð leið sem sniðin er að vanda sveitarfélaganna, að sveitarfélögunum er heimilað að breyta innlausnaríbúðum í leiguíbúðir án þess að borga upp lánin. Þau geta yfirtekið lánin sem eru yfirleitt á 1% vöxtum, sum reyndar á 2,4% vöxtum og látið þau lifa út sinn líftíma og fá síðan leiguíbúðalán á þeim vöxtum sem veitt verða til leiguíbúða til viðbótar út lánstímann. Af þessum lánum eru 34 ár eftir af lánstímanum að meðaltali og meðalvextir eru 1,5%. Þegar þetta er orðið að lögum, sem ég vona að gerist á morgun, geta sveitarfélögin yfirtekið lánin sem fylgdu innlausnaríbúðunum og búið við þau meðan þau endast og síðan tekið lán til viðbótar til að ná 50 ára markinu. Til viðbótar þessu er vandinn sums staðar sá að leiguíbúðir standa auðar.

Víða er næg eftirspurn á leigumarkaði sem betur fer þó að sölumarkaður sé ekki nægilega öflugur. Í þessu módeli hafa verið gerðar áætlanir fyrir eignarhaldsfélög sem gætu orðið allt að 70 á landinu öllu um rekstur, efnahag og sjóðstreymi. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélögn leggi eignarhluta sinn í íbúðunum fram sem stofnframlag í eignarhaldsfélagið. Þetta er nokkuð svipuð leið og er eftir fyrirmynd Félagsbústaða í Reykjavík að breyttu breytanda.

Reiknuð er kostnaðarleiga í hverju eignarhaldsfélagi sem mundi standa undir afborgunum, vöxtum og öllum rekstri íbúðanna. Í framhaldi af því eru gerðar áætlanir sem byggja á þeirri forsendu að markaðsleiga í hverju sveitarfélagi taki mið af íbúafjölda og þannig er gert ráð fyrir lágmarksmarkaðsleigu í hverju sveitarfélagi. Í útreikningi kostnaðarleigunnar í hverju eignarhaldsfélagi er miðað við að greiðslustaða viðkomandi félags gangi upp og að allar íbúðir væru leigðar út. Þær áætlanir sem gerðar eru miðast við að eignarhaldsfélögin yfirtaki allar íbúðir sveitarfélaganna með áhvílandi lánum óháð lánsformum Íbúðalánasjóðs, þ.e. hvort heldur um er að ræða félagslegar eignaríbúðir, leiguíbúðir, almennar kaupleiguíbúðir eða félagslegar kaupleiguíbúðir.

Íbúðir í eigu sveitarfélaganna eru 2.688 sem er fjórðungur af félagslega íbúðakerfinu í landinu. Innlausnarverð þessara íbúða er 19,4 milljarðar og eignarhlutur sveitarfélaganna er í kringum 25% eða 4,8 milljarðar. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög ábyrgist greiðslu metinnar lágmarksmarkaðsleigu og séu leigutekjur lægri en metin lágmarksmarkaðsleiga fellur mismunurinn á viðkomandi sveitarsjóð. Það fjármagn sem vantar á niðurgreiðslu á verði íbúðanna þarf að koma með sérstökum ráðstöfunum frá opinberum aðilum. Nefndin telur hagkvæmara að framlag til eignarhaldsfélaganna verði greitt árlega og árleg greiðsla næmi þá mismun á markaðsleigu og kostnaðarleigu að frátöldum þeim hluta sem hvert sveitarfélag á að bera eða sem nemur tæpum 100 millj. á ári í 34 ár miðað við forsendur reiknilíkansins. Framlag sveitarsjóðanna til viðkomandi eignarhaldsfélaga yrði samkvæmt þessari niðurstöðu að eignarhlutur þeirra yrði um 4,8 milljarðar. Aðrir opinberir sjóðir mundu þurfa að leggja til viðbótar 1,6 milljarða til lækkunar á verði íbúðanna og niðurstöður reiknilíkansins gera ráð fyrir því að lækka þurfi verð íbúðanna um 6,4 milljarða. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir að 1,2 milljarðar fari til að lækka skuldastöðu sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð. Með þessum hætti ætti rekstrargrundvöllur eignarhaldsfélaganna að vera tryggður.

Nefndin leggur til að hafist verði handa um að endurskipuleggja félagsleg húsnæðismál sveitarfélaga með þeim hætti að stofna eignarhaldsfélög eins og ég sagði áðan.

Ef þessar tillögur eru skoðaðar í ljósi Vestfjarða og sölu orkubús, þá er ljóst að með þeim fjármunum sem fást fyrir orkubúið geta sveitarfélögin fært niður skuldabyrði á hvern íbúa. Þau geta gert upp vanskil sín við Íbúðalánasjóð, Landsbanka, Byggðastofnun, Lánasjóð sveitarfélaga o.s.frv., og þau eiga að geta verið í stakk búin til að taka þátt í endurskipulagningu húsnæðiskerfisins ef gert er ráð fyrir að 17% af andvirðinu gætu runnið til þess hjá sveitarfélögunum. Út af fyrir sig er mjög nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að húsnæðiskerfið er partur af vanda sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir þessum lánum. Sveitarfélögin eru ábyrg fyrir þeim skuldum eins og öðrum. Hitt getur verið skynsamlegt frá sjónarhóli sveitarfélaganna að geyma að borga þessar skuldir ef þær eru á hagstæðari vöxtum en annað, en það er engin björgun fyrir sveitarfélögin að skilja þau eftir með húsnæðisvandann óleystan jafnvel þó að öllum lánum væri komið í skil í bili ef húsnæðiskerfið keyrir fjárhag þeirra um þverbak innan skamms.

Ef við leikum okkur áfram með þessa sölu þá fer hlutur sveitarfélaga í söluandvirðinu eftir íbúafjölda og hlutur Ísafjarðar t.d. yrði 1.445 millj. og hægt er að gera töluvert fyrir 1.445 millj. Sem betur fer dugir þetta til að koma Ísafirði í býsna blómlegt ástand.

[24:00]

Vesturbyggð fengi rétt tæpar 400 millj. út úr hlut sínum í orkubúinu ef Vesturbyggð mundi selja, sem ég geri alveg ráð fyrir. Það dugir hins vegar ekki fyrir Vesturbyggð og það verður að grípa til frekari ráðstafana til að sveitarfélagið komist í rekstrarhæft ástand. Reykhólahreppur fengi 104 millj. og veitir sannarlega ekki af. Bolungarvík fengi tæpar 340 millj. og Hólmavík 150 millj. Þess má geta að allmörg sveitarfélaganna á Vestfjörðum hafa verið til umfjöllunar hjá eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna fjárhagserfiðleika og það liggur alveg ljóst fyrir að komi ekki til mjög róttæk lausn á fjárhagsvanda flestra sveitarfélaga á Vestfjörðum á næstu mánuðum mun rekstur þeirra stöðvast með þeim afleiðingum að vandséð er hvort nokkur verður leið til þess að stöðva fólksflóttann.

Nú eru úrræði til og bent er á úrræði í sveitarstjórnarlögum hvernig hægt er að bregðast við. Það er hægt að taka fjárstjórn af sveitarfélögunum undir ákveðnum kringumstæðum. Það er hægt að leggja 25% álag á útsvarið. Ekki held ég að mönnum lítist á þá leið. Ekki langar mig til þess að fara að beita mér fyrir því að taka fjárráðin af Vestfirðingum. Það segi ég satt.

Vestfirðingar eiga við erfiðleika að etja. Ríkisstjórnin er öll af vilja gerð til þess að aðstoða þá við að vinna sig út úr þeim erfiðleikum og ég tel að þarna sé opnuð leið ef þeir vilja fara hana og ég heyri það á sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum að þeir leggja mjög ríka áherslu á að þetta frv. verði afgreitt. Ég skal ekki segja um hvaða ákvarðanir þeir koma til með að taka í sínum ranni um sölu en ríkið er tilbúið að kaupa á þessu verði.

Skuld á hvern einstakling á Vestfjörðum var í október sl., þ.e. í október 2000, 324 þús. að meðaltali. Þetta var mjög misjafnt milli sveitarfélaga því að sem betur fer eru sum sveitarfélögin á Vestfjörðum og þó fyrst og fremst þau litlu ekki skuldug eða skulda lítið. Ef orkubúshluti sveitarfélaganna væri seldur og skuldir borgaðar miðað við þessar upphæðir sem ég hef verið að nefna, þ.e. 2.760 millj., þá kæmust meðaltalsskuldir sveitarfélaganna á Vestfjörðum niður fyrir 100 þús. á íbúa og það er prýðilega undir landsmeðaltali eða í kringum landsmeðtal. Það er reyndar engin ástæða til að gera kröfu til þess að þau fari undir meðaltalið en þetta ætti að geta tryggt sæmilega traustan fjárhag um fyrirsjáanlega framtíð hjá þessum sveitarfélögum.

Ég vil síðan að endingu, herra forseti, endurtaka að það verður enginn knúinn til að selja sinn hlut. Ríkið er hins vegar tilbúið að kaupa ef sveitarfélögin ákveða að selja. Þetta frv. hljóðar heldur ekki um sölu heldur um það að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag þannig að einstök sveitarfélög geti að eigin ákvörðun komið eignarhlut sínum í verð.