Orð forseta um Samkeppnisstofnun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:03:49 (8258)

2001-05-19 10:03:49# 126. lþ. 129.92 fundur 570#B orð forseta um Samkeppnisstofnun# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:03]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og gagnrýni þau ummæli sem hæstv. forseti hafði um Samkeppnisstofnun í gær. Mér þótti þau óviðurkvæmileg og ég skal fúslega viðurkenna að eins og hv. þm. nefndi áðan er hæstv. forseti oft spaugsamur. Oft er full ástæða til þess að hlæja dátt að því spaugi sem hann lætur sér um munn fara en ég var ekki ein þeirra sem hlógu í gær. Mér þótti, herra forseti, of langt gengið úr forsetastóli og farið út fyrir mörk þess sem eðlilegt er að hæstv. forseti geri í ummælum sínum um stofnun á borð við þá sem hér er rætt um.

Við skulum athuga, herra forseti, að við erum að tala um stofnun sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar. Hún gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í því að tryggja að hér séu eðlilegar leikreglur viðhafðar á samkeppnismarkaði og hún hefur oft setið undir gagnrýni og ámæli fyrir að hafa beitt þeim úrræðum sem henni eru fengin samkvæmt lögum. Þess vegna þótti mér, herra forseti, þetta ekki viðeigandi.

Hæstv. forseti bætir nú enn um betur með svari sínu því að nú má eiginlega skilja það svo þegar hæstv. forseti svarar þannig að túlkun á ummælum hans velti á því hvernig menn túlki virðingu Alþingis. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forseta hvað hann eigi við með þessum ummælum.