Orð forseta um Samkeppnisstofnun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:08:04 (8262)

2001-05-19 10:08:04# 126. lþ. 129.92 fundur 570#B orð forseta um Samkeppnisstofnun# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:08]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Samkeppnisstofnun hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Stofnunin hefur margoft farið yfir mál sem skipta neytendur mjög miklu og sennilega skipt neytendur í þessu samfélagi meira máli en flestar aðrar ríkisstofnanir sem hafa fjallað um þetta á þessum vettvangi í langan tíma. Því velti ég fyrir mér, virðulegi forseti: Hvað gerir það að verkum að hæstv. forseti leyfir sér ummæli eins og þessi? Hvað er það sem réttlætir að hæstv. forseti leyfir sér að fjalla þannig um stofnanir að það komi virðingu Alþingis ekkert við hvernig um hana er fjallað? Hvaða efnislegu rök eru það, virðulegi forseti, að hæstv. forseti leyfir sér að fjalla þannig um ríkisstofnun með þeim hætti sem hann gerði í gær? Það er það sem skiptir öllu máli og hæstv. forseti skuldar þingheimi og stofnuninni skýringu á því. Vel má vera að hæstv. forseta finnist að stofnunin hafi ekki alltaf staðið sig í stykkinu en það er þó lágmark að hæstv. forseti setji fram efnisleg rök í málinu en komi ekki fram eins og óþægur krakki.