Orkulög

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:18:58 (8273)

2001-05-19 10:18:58# 126. lþ. 129.50 fundur 736. mál: #A orkulög# (arðgreiðslur raf- og hitaveitna) frv. 78/2001, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:18]

Frsm. iðnn (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum, frá iðnn. Hv. iðnn. flytur þetta mál.

Frv. er flutt í ljósi þess að þegar hefur verið fjallað um og afgreiddar á hv. Alþingi breytingar á orkulögum sem m.a. fela í sér heimild til að breyta orkuveitufyrirtækjum í eigu ríkis eða sveitarfélaga, þ.e. Orkubú Vestfjarða sem hér hefur verið til umræðu og Hitaveitu Suðurnesja, í hlutafélög. Í kjölfarið hefur komið fram eindregin ósk ýmissa annarra orkufyrirtækja í eigu sveitarfélaga víða um landið, má segja, að fá sambærilega heimild þar sem mikið er um að vera í orkugeiranum. Menn ræða um sameiningu, samruna til þess að taka þátt í samkeppni sem augljóslega er fram undan á orkusviði.

Til að gæta jafnræðis samþykkti hv. iðnn. að leggja fram þetta frv. sem felur í sér að eigendum sé heimilt að breyta rekstrarforminu í hlutafélag. Samhliða er í 1. og 2. gr. þessa frv. kveðið á um að eigendum héraðsrafmagnsveitna og hitaveitna sé heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigum sínum.

Hv. nefnd flytur þetta frv. um breytingu á orkulögum til þess í raun að bregðast við tilmælum frá hv. félmn., en fram kemur í áliti hv. félmn. með frv. til sveitarstjórnarlaga að nauðsynlegt sé að skerpa lagagrundvöll fyrir því að orkufyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga sé heimilt að greiða sér allt að 7% arð eins og tíðkast hefur um áratuga skeið. Með þessu, herra forseti, er verið að styrkja þann lagagrundvöll.

Í sjálfu sér er ekki meira um þetta að segja. Hv. iðnn. stendur einhuga að því að flytja frv. Að lokinni þessari yfirferð, hæstv. forseti, mælist ég til þess að því verði vísað til 2. umr.