Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 10:30:10 (8281)

2001-05-19 10:30:10# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[10:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í upphafi þingfundar í morgun og óskaði eftir því að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., yrði viðstaddur þessa umræðu og ítreka þá ósk nú við upphaf hennar.

Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. er kominn í þingsalinn. Ég vil taka fram í upphafi að ég tel mjög mikilvægt að fyrir liggi mjög skýr afstaða frá hendi beggja stjórnarflokkanna þegar um er að ræða jafnmikilvægt mál og sölu Landssímans, ekki aðeins vegna þess að Landssími Íslands er mikilvæg þjónustustofnun við alla landsmenn og ekki aðeins vegna þess að um er að ræða mikilvæga gullgerðarvél sem hefur reynst Íslendingum vel um langan tíma. Á síðasta áratug rúmum eða frá 1988 reiknast mönnum til að Landssíminn hafi skilað um 20 milljörðum, um 20 þúsund millj. í ríkissjóðs og enn er stofnunin aflögufær.

Einnig skiptir máli að fá hér upplýsta aðra þætti sem varða sölumálin, hvernig skuli staðið að sölunni og hvenær skuli selt. Ég hef vitnað í ummæli hæstv. samgrh. um sölu á Símanum þar sem hann segir við umræðuna fyrr m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkissjóður getur ekki komið fram eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínum út á sem hæstu verði ...``

Síðan segir hann, með leyfi forseta:

,,Það verð sem nú er á eignarhlutum í símafélögum gefur fjárfestum raunhæfa von um að fjárfesting í öflugum og vel reknum félögum geti skilað góðum arði.``

Ríkið á ekki að koma fram eins og hver annar spákaupmaður sem er að reyna að knýja fram sem hæst verð fyrir þær stofnanir sem seldar eru og það þarf að tryggja að stofnunin skili nýjum eigendum, fjárfestunum, góðum arði.

Ég spyr: Hver er afstaða formanns Framsfl. til þessarar yfirlýsingar fulltrúa Sjálfstfl. um að ekki beri að tryggja sem best verð fyrir Landssímann þegar hann verði seldur? Menn eru minnugir þess hvað gerst hefur í einkavæðingunni á liðnum árum. SR-mjöl, það er enginn búinn að gleyma því. (Utanrrh.: Hver er arðurinn af því?) Hver er arðurinn af því, spyr hæstv. utanrrh., formaður Framsfl. SR-mjöl borgaði sig upp á fáeinum missirum fyrir eigendurna. Áburðarverksmiðjan var einnig seld á gjafprís. Nú eru menn að tala um að færa Landssímann upp á silfurfati. Ég óska eftir að heyra afstöðu Framsfl. til þessara ummæla hæstv. samgrh., fulltrúa Sjálfstfl., við þessa umræðu. Er hann sammála þessu? Ég endurtek að við erum að tala um gullmola. Við erum að tala um gullgerðarvél fyrir íslensku þjóðina.

Menn gerðu því skóna fyrir fáeinum missirum og árum að senn væru dagar þessarar stofnunar taldir, samkeppnin mundi haga því svo til að hún ætti sér ekki framtíð. Þegar greint var frá því fyrir fáeinum dögum að hagnaður Landssímans fyrir árið 2000 hafi verið 6,5 milljarðar kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði, kom jafnframt fram að tekjuaukningin frá árinu áður væri um 18% þannig að hagur Símans blómgast. Þótt gjöldin sem tekin eru fyrir þjónustu Símans fari lækkandi, vegna þess að tækninni fleygir fram, eykst þjónustan hröðum skrefum. Menn nota síma og þessa fjarskiptaþjónustu svo miklu meira en þeir gerðu fyrr á tíð.

Síðan er annað sem snýr að sölunni og hvernig að henni skuli staðið. Annars vegar er um það rætt að selja Símann í heild sinni sem einn pakka. En ég veit ekki betur en hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., hafi haft efasemdir um þetta og hafi talið að alla vega fyrst í stað beri að halda meirihlutaeign ríkisins í Landssímanum. Ég óska eftir upplýsingum um afstöðu hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. um þetta efni. Ég þykist minnast þess að hann hafi sagt að fyrstu mánuðina alla vega og missirin verði að haga málum á þennan hátt.

Þá er komið að hinum heilaga markaði. Okkur er sagt að óvissa á þeim bæ sé skaðleg og þá hugsanlega einnig fyrir seljanda Landssímans í þessu tilviki vegna þess að óvissan geti rýrt verðgildi stofnunarinnar. Þess vegna er mikilvægt að þessari óvissu verði eytt. Hvað stendur til að gera? Á að selja Símann í heilu lagi? Á að selja hann í áföngum? Hvað meinar hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. þegar hann segir, og ég vona að ég vitni rétt í hans ummæli, að hann telji hyggilegt að fara hægt í sakirnar og halda meirihlutaeign ríkisins alla vega um nokkurra mánaða, jafnvel missira skeið? Hversu mörg missiri? Hver eru skilaboðin til markaðarins hvað þetta snertir?

Síðan eru aðrir þættir sem væri eðlilegt að heyra afstöðu beggja stjórnarflokkanna til og það lýtur að landsbyggðinni. Það kemur fram í greinargerð meiri hlutans um þetta frv. að fyrirtæki búa ekki við jafngóðan hlut á landsbyggðinni og í þéttbýlinu og úr þessu þurfi að bæta og menn óttast að með sölu Símans muni þessi munur fara vaxandi, gjáin muni dýpka, bilið muni breikka. Í greinargerð meiri hlutans er rætt um að til þurfi að koma stuðningur fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Ég hef lýst efasemdum um að nokkur alvara sé hér að baki vegna þess að um það hefur verið rætt árum saman af hálfu þessarar ríkisstjórnar að til standi að styðja fyrirtæki á landsbyggðinni sérstaklega. Efndirnar eru engar. Á hinn bóginn er verið að veikja stoðþjónustuna á landsbyggðinni þótt margar öfugmælavísurnar séu kveðnar í þeirri umræðu eins og þegar því er haldið fram að lokun pósthúsa á landsbyggðinni sé sérstaklega til þess fallin að efla þar póstþjónustu. Við höfum dæmin þar úr Skagafirði og á Skagaströnd, í Varmahlíð, Hofsósi og á fleiri stöðum hefur útibúum verið lokað. Mörg hundruð manns hafa undirritað áskorunarbréf til hæstv. samgrh. um að grípa í taumana. Hann svarar fólkinu ekki en fullyrðir hér úr ræðustól að þetta sé sérstaklega til þess fallið að efla póstþjónustuna og undir það hafa fulltrúar Framsfl. einnig tekið. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar til landsbyggðarinnar, þ.e. að rýra og veikja stoðþjónustuna, einkavæða, loka pósthúsum og draga úr þjónustu. Þetta er framlagið. Þess vegna setur maður stór spurningarmerki við yfirlýsingar af því tagi sem er að finna í meirihlutaáliti um sölu Landssímans. Hvaða hugmyndir hefur Framsfl. um þetta efni? Hvernig ætlar Framsfl. að styðja fyrirtæki sem búa við lakari samkeppnisaðstöðu eftir einkavæðingu Símans? Hvernig ætla menn að gera það?

Í meirihlutaálitinu segir einnig að svo sé búið um í lögum að ríkisvaldið muni hafa tök á því að sinna verkefnum sem eru óarðbær en nauðsynleg í byggðalegu tilliti eða af öryggishagsmunum, umhverfisástæðum eða öðru þvílíku sem skilar ekki arði. Þannig er það einmitt orðað og ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta. Nú vitna ég í greinargerðina, með leyfi forseta:

,,Þá eru víðtækar heimildir í fjarskiptalögum til að tryggja fullnægjandi þjónustustig með svokallaðri alþjónustu, auk þess sem samgönguráðherra hefur heimildir til að leggja í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla, í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum og ætla má að skili ekki arði.``

Þeir ætla að selja gullgerðarvélina sem hefur skilað okkur 20 þús. millj., 20 milljörðum, á rúmum áratug í ríkiskassann. Þeir ætla að láta hana frá sér helst á eins lágum prís og unnt er ef dæma má af orðum hæstv. samgrh. En við, þ.e. skattborgarinn á að hafa með höndum þau verkefni sem eru ekki arðbær, sem skila ekki arði. Hvaða verkefni eru menn að hugsa um í þessu efni? Ég óska eftir upplýsingum um það.

Síðan er eitt sem mér þætti vænt um að heyra skýringar um og það er pólitíkin sem liggur að baki vegna þess að jafnan þegar ríkisstjórnin einkavæðir, þegar hún selur frá okkur gullgerðarvélarnar, afsalar þjóðinni eignunum, þá er alltaf ein skýring á endanum sem mestu máli þykir skipta, pólitík. Í meirihlutaálitinu segir t.d.:

,,Fyrirhuguð sala er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.``

Ríkisstjórnin skipaði sérstaka nefnd til þess að setja skipulega niður hvað lægi að baki þessari pólitík, á hverju þessi pólitík væri byggð. Það var gert í sjö liðum. Í sjö liðum var útlistað á hverju þessi stefna stjórnarinnar væri byggð.

1. Að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu. Markaðsöflin eru alla jafna betri trygging fyrir skynsamlegri nýtingu framleiðsluþáttanna en ríkisafskipti.

Ég er alveg sammála því að á vissum sviðum á markaðurinn að ríkja og við eigum að nýta okkur kosti markaðarins, að sjálfsögðu. Við eigum að búa við kröftugt markaðskerfi og það er hlutverk hins opinbera að styðja þetta kerfi með öflugri stoðþjónustu, með góðu velferðarkerfi og öflugri stoðþjónustu, samgöngum, fjarskiptum o.s.frv. En þá þarf líka að vera markaður til staðar. Þá þarf líka að vera alvörumarkaður. Það er það sem Samkeppnisstofnun og þeir sem um þetta hafa fjallað leggja áherslu á í umsögnum sínum, að menn séu einfaldlega að einkavæða einokun, að hér verði ekki raunverulegur markaður.

[10:45]

Í raun veit enginn hvað gerist í þessum efnum. Enginn veit hvort Síminn verður gleyptur af erlendum símafyrirtækjum, sem er vel til í dæminu, sem muni þá hafa einokandi stöðu í þjóðfélagi okkar. Það er möguleiki enda er þetta óskrifað blað. Slíkt hefur gerst erlendis. Í Danmörku var varla búið að gera símann að hlutafélagi og setja hann á markaðinn fyrr en Ameritec, fyrirtæki með heimilisfang í Chicago, var komið með ráðandi stöðu í fyrirtækinu. Síðan er búið að selja hann út og suður. Svipuð þróun hefur átt sér stað á fleiri stöðum. Einokunin styrktist á Nýja-Sjálandi. Það hefur verið vitnað í reynslu Nýsjálendinga af einkavæðingunni þar. Á liðnum mánuðum hefur verið mikil umræða um það á Nýja-Sjálandi hvernig einokunarfyrirtækið hefur leikið notendur. Það er ekki nóg að vísa bara í markaðinn eins og hverja aðra heilaga ritningu. Hann þarf að vera til staðar og markaðslögmálin verða að geta leikið um þennan markað í raunverulegri samkeppni.

Einkavæðingarnefnd segir síðan, fyrir hönd hæstv. utanrrh., Halldórs Ásgrímssonar og hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar og annarra ráðherra og stjórnarmeirihlutans, að nauðsynlegt sé að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækinu, reynslan sýni að meiri faglegar kröfur séu gerðar til stjórnenda og þeir fái meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðinguna. Hefur þetta verið raunin? Hefur sú verið raunin? Var þörf á meira aðhaldi gagnvart stjórnendum Landssímans fyrr á tímum? Er það ekki staðreynd að þegar Síminn var gerður að hlutafélagi fyrir fáeinum árum þá bjuggu Íslendingar við lægsta gjald sem tekið var fyrir símaþjónustu á byggðu bóli? Það voru reidd fram samanburðargögn um þetta. Ég hef farið í gegnum það við umræðuna og ætla ekki að endurtaka það. Halda menn því fram að það hafi skort aðhald frá hendi stjórnenda stofnunarinnar? Við nutum líka góðs af samstarfi við aðrar þjóðir. Fulltrúar Landssímans fóru á norrænan vettvang. Hingað til lands komu sérfræðingar og starfsmenn símafyrirtækja á Norðurlöndum og aðstoðuðu okkur við ýmislegt. Núna mæta menn á þessa fundi, sem eru að sjálfsögðu ekki lengur samstarfsfundir, með rýtinginn uppi í erminni. Nú eru allir í samkeppni og búa yfir viðskiptaleyndarmálum. Það eru þessi lögmál sem menn ætla að virkja núna.

Síðan er staðhæft, fyrir hönd Sjálfstfl. og Framsfl., að mjög mikilvægt sé að efla hlutabréfamarkað því öflugur innlendur hlutabréfamarkaður sé mjög þýðingarmikill fyrir alla efnahagsstarfsemi. Slá má á þenslu með því að hvetja almenning til þátttöku í atvinnurekstri með hlutafjárkaupum. Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvægur og nauðsynlegur fyrir alla efnahagsstarfsemi, segja þeir. Þetta er rangt. Er þetta skoðun Framsfl., t.d. að hlutafélagavæða beri velferðarþjónustuna? Hún er efnahagsstarfsemi líka. Því hefur aftur á móti verið haldið fram um þau fyrirtæki sem eru þjóðfélaginu nauðsynleg og mynda stoðkerfi samfélagsins að þau hafi ekki sérstaklega gott af því að vera rekin á þessum grunni. Og hvers vegna? Vegna þess að þegar eigandinn er á sinn hátt rótfastur í umhverfi fyrirtækisins þá er hann líklegur til að taka dýfurnar með fyrirtækinu. Hlutabréfaeigandinn er hins vegar víðs fjarri og fer þangað sem gróðinn er mestur. Þess vegna gerist það, þegar fyrirtæki eru hlutafélagavædd, að þessir aðilar hverfa á braut. Því hefur verið haldið fram, m.a. af hagfræðingum í Bandaríkjunum, að hlutafélagsformið sé ekki heppilegt fyrir starfsemi, sem þarf að geta tekið áföllum og dýfum án þess að eigandinn renni af hólmi. Þess vegna er þetta röng fullyrðing. Mér þætti vænt um að fá pólitískar hugleiðingar fulltrúa Framsfl. um þetta.

Þá er talað um að með sölunni sé verið að bæta stöðu ríkissjóðs. Með sölu á hlutabréfum ríkisins er unnt að greiða niður umtalsverðar skuldir ríkisins og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni. Ætlunin er að bæta stöðu ríkissjóðs. En hvað með yfirlýsingu hæstv. samgrh. sem ætlar að selja Símann á eins lágum prís og hann mögulega getur ef marka má yfirlýsingar hans? Ég hef vitnað í það áður. Við eigum ekki að vera spákaupmenn, segir hann. Ekki eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínum út á sem hæstu verði. Hvernig rímar þetta við þessa yfirlýsingu? Hvernig er það til þess fallið að bæta stöðu ríkissjóðs þegar ríkissjóði eru afsöluð yfirráð yfir gullgerðarvélum á borð við Landssímann, en eftir situr ríkissjóður og skattborgarinn með það sem ekki skilar arði, eins og gert er ráð fyrir? Er það til að bæta stöðu ríkissjóðs?

Var það til að bæta stöðu borgarsjóðs þegar Brunatryggingar í Reykjavík, sem voru enhverjar þær ódýrustu á byggðu bóli, reknar úr tveimur eða þremur skúffum úr borgarkerfinu, voru einkavæddar? Það var mikill arður af þessu, einhverjir tugir milljóna á ári hverju sem runnu til Slökkviliðsins í Reykjavík og spöruðu þannig skattgreiðendum í Reykjavík drjúgan pening. Var það til að bæta stöðu borgarsjóðs? Nei, svo var ekki. Sú ráðstöfun byggðist í fyrsta lagi á misskilinni túlkun Evrópusambandsins og EES-samninganna og náttúrlega pólitískri ákvörðun, sem ég taldi ekki hyggilega. (Gripið fram í.) Mér er sama hver tók þá pólitísku ákvörðun. Mér er sama hvað flokkurinn heitir eða maðurinn heitir. Ég er að spyrja um innihald stjórnmálanna. Ég er að spyrja um stefnu en ekki hverjir beri þá stefnu uppi enda þarf ég ekki að gera það í þessu tilviki. Hér erum við að fjalla um tiltekið mál, sölu Landssímans, að hann verði settur á markað að kröfu fjárfesta og þeirra sem halda um markaðsmálin af hálfu stórfyrirtækjanna. Ríkisstjórnin er að framkvæma þann vilja og ég óska eftir skýringum hennar. Ég óska eftir vangaveltum manna um þessi boðorð, boðorðin sjö, sem einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar hefur sett á blað í hennar umboði.

Síðan er talað um að bæta hag neytenda. Með þeirri hagræðingu sem hlýst af einkavæðingu eru líkur á því að samkeppni á markaði aukist sem skilar sér í bættum hag neytenda, segir í boðorðunum. Ég er búinn að fara yfir þetta. Samkeppnisstofnun hefur efasemdir um þetta. Samkeppnisaðilar Landssímans hafa einnig efasemdir um þetta og telja að salan, alla vega hvernig að henni er staðið, muni ekki stuðla að samkeppni. Hverju svara menn því? Hvernig væri að svara þessu?

Síðan er náttúrlega þetta stórskemmtilega atriði, að einkavæðingin sé sérstaklega til þess fallin að bæta stöðu starfsmanna. Einkavædd fyrirtæki hafa meiri möguleika en ríkisfyrirtæki til að greiða góðu starfsfólki, er sagt, --- takið eftir því --- góða fólkinu, að greiða góðu starfsfólki há laun, m.a. með árangurstengdum launakerfum ásamt því að tryggja atvinnu til langframa. (Gripið fram í.) Já, góða fólkið og vonda fólkið. Góða fólkið á að fá óskaplega vel borgað. Við vitum hvernig þetta er á markaði. Við vitum t.d. hvernig þetta er hjá Shell, olíufyrirtækjunum og tryggingafyrirtækjunum. Góða fólkið, við vitum alveg hverjir það eru. Það eru að sjálfsögðu forstjórarnir og hirðin í kringum þá. Það er góða fólkið. Þeir eru á prýðilegum launum. En þeir sem afgreiða bensínið eða eru á kössunum í búðunum eru þá væntanlega vonda fólkið. En þetta er staðhæft fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að öllu gríni slepptu, því að þetta er ekkert grínmál, held ég að staðreyndin sé sú að einkavæðingin hér á landi sem annars staðar hafi orðið til þess að auka launamuninn. Ég held að staðreyndin sé sú. Öllu skal haldið til haga. Ég held að þetta sé staðreyndin.

Að endingu er fjallað um að breytingin verði til þess að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr hagsmunum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir, segir einkavæðinganefnd. Hér er náttúrlega vikið að Skagfirðingum, sérhagsmunahópum í Skagafirði sem hafa snúið sér til hæstv. samgrh. og hvatt hann til að grípa í taumana þegar pósthúsum er lokað þar. Eru það sérhagsmunahóparnir? Hvaða sérhagsmunahópa eru menn að tala um? Eða eru það ekki sérhagsmunir sem fjárfestar hafa og þeir sem hafa peningana á hendi? Hafa þeir ekki sérhagsmuni? Að sjálfsögðu.

Mig langar að nefna enn eitt. Þegar fullyrt er að þessi einkavæðingarstefna hafi verið mjög til góðs og sérstakra hagsbóta fyrir landsmenn og skattgreiðendur þá er það náttúrlega ekki þannig. Við erum nýlega búin að fá úttekt á Sóltúni 2, þar sem ríkisstjórnin gerði samning við Securitas og Íslenska aðalverktaka um að einkavæða gamla fólkið. Við höfum það dæmi og staðreyndin er sú, það kom fram í úttekt sem gerð var á vegum opinberra aðila, að það er miklu dýrara fyrir ríkissjóð, fyrir skattgreiðandann, að fara út á þá braut.

Eitt ætla ég ekki að fara út í hér en það eru tengsl einkavæðingarnefndarinnar, þeirrar sem er að gagnrýna sérhagsmunina, við hina einkavæddu starfsemi. Hvaða fyrirtæki eru það sem reisa Sóltún? Skyldu það vera Íslenskir aðalverktakar? Gæti verið að einhver sem situr þar í stjórn sé einnig í einkavæðingarnefnd? Væri athugandi að skoða það? Þegar menn leyfa sér að setja á blað að útrýma eigi sérhagsmunum og tala um opinbera þjónustustarfsemi nánast með fyrirlitningu, eigum við þá ekki að fara í saumana á þessum málum? Ég held að það væri ráð. (Gripið fram í.) Já, við skulum gera það. Við skulum fara yfir alla þessa þætti. Við skulum rifja upp að Dvalarheimili aldraðra sjómanna óskaði eftir að reisa þetta elliheimili á sínum forsendum. Hverjar voru þær? Með því að samnýta þjónustu sem þeir bjuggu við, eldhús og aðra þjónustustarfsemi, gátu þeir náð verði niður fyrir skattgreiðandann. Ríkisstjórnin hafði hins vegar engan áhuga á því, ekki nokkurn. Nú er komið á daginn að ásakanir og gagnrýni sem hér voru settar fram reyndust réttar. Þetta er miklu dýrara, enda kemur fram í rökstuðningi Ríkisendurskoðunar, í skýrslu sem hún gerði, að að hluta til sé þetta eðlilegt vegna þess að hinir nýju eigendur þurfi að fá til sín arð. Hið sama mun gerast í öllum þessum einkavæddu stofnunum, að fjármunir sem áður fóru til uppbyggingar fara nú í vasa fjárfestisins.

Í þessu samhengi má nefna annað nýlegt dæmi. Ríkið gerði leigusamninga um Borgartún 21 fyrir ríkisstofnanir. Í svari við spurningum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, sem hann setti fram á Alþingi um hvernig að þessum málum væri staðið, kemur í ljós að leigusamningurinn kostar 2,4 milljarða. Um er að ræða húsnæði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Ég ætla að vitna í Morgunblaðsgreinina, með leyfi forseta:

,,Kostnaður ríkissjóðs við flutning ýmissa ríkisstofnana og fyrirtækja og aðlögun þeirra í nýbyggingu einkaaðila í Borgartúni 21, nemur alls tæplega 313 milljónum króna. Um er að ræða húsnæði sem leigt hefur verið til 20 ára og munu leigugreiðslur á samningstímabilinu ekki verða undir 2,4 milljörðum kr., en leigufjárhæðin er bundin vísitölu neysluverðs.``

Síðan er vitnað í spurningar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og þetta útlistað nánar. Hins vegar kemur einnig fram í fréttinni að þessi leigusamningur, sem gildir til ársloka árið 2020, hafi einnig verið undirbyggður með sérstöku framlagi til eigenda húsnæðisins til að ganga frá öllum þörfum þeirra sem húsnæðið áttu að fá til afnota. Ég spyr t.d. um Húsnæðisstofnun fyrst hæstv. félmrh. er hér viðstaddur. Ég veit ekki betur en Húsnæðisstofnun hafi verið í húsnæði sem sú stofnun átti og hafði tiltölulega lítinn kostnað af. Hvernig í ósköpunum stendur á því að farið er út í svona rugl? Hvers konar hagsmunagæslumenn er ríkisstjórnin fyrir þjóðina? Hvers konar hagsmunagæslumenn eru þetta? Þeir sólunda peningum og standa ekki vaktina fyrir þjóðina í nokkru einasta máli. Það er ekki nóg með að þeir svipti íslenska sjómenn samningsrétti, banni verkfall þeirra, reki rýting í bakið þeim eftir hálfs annars mánaðar verkfall þar sem þeir hafa verið kauplausir. Nei, nú er tekið til við hin verkin, að afsala þjóðinni eignum sínum.

Þegar hæstv. samgrh. leyfir sér að segja, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að það standi ekki til að selja Landssímann á eins háu verði og mögulegt er, þá er eðlilegt að hinn stjórnarflokkurinn sé einnig spurður álits.

Ég geri mér grein fyrir því að á því máli eru einnig aðrar hliðar, t.d. sú að þessari stofnun vegni vel. Ég geri mér grein fyrir því. Mér finnst það mikilvægt. En mér finnst mikilvægast, við núverandi stöðu, að við afsölum okkur ekki í fljótræði yfirráðum yfir eign sem best er komin í okkar eigin höndum. Allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar gengur út á að einkavæða og prjóna síðan laga- og reglugerðarnet og þenja út eftirlitsstofnanir til að hafa eftirlit með þessum verkum sínum. Það er leiðin og ég spyr: Hvers vegna ekki að stytta sér leið? Hvers vegna í ósköpunum ekki að stytta sér leið og halda þessari þjóðareign í okkar eigin höndum?