Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:08:38 (8284)

2001-05-19 11:08:38# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, Framsfl. ætlar ekki að hörfa. En hann lítur á að stórt verkefni ríkisins sé ekki síst eftirlitsskylda og að halda utan um samkeppnina, að hún verði með eðlilegu móti. Og kannski er það að verða eitt stærsta hlutverk ríkisvaldsins í þjóðfélagi samtímans að fylgja því eftir að farið sé eftir lögum og reglum. Ég kvíði því ekki.

Ég fagna því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur viðurkennt þá glæsilegu fjárfestingarkosti fyrir lífeyrissjóði landsmanna að fjárfesta í Landssímanum og bankakerfinu og ég vil segja að það er ekki síst vegna alþjóðavæðingar og við skulum segja EES-samningsins sem við búum núna við þetta frelsi og ríkið verður að hörfa út úr rekstri. Þetta er staða dagsins fyrir utan að stjórnmálaflokkarnir allir, nema kannski Vinstri grænir, eru sammála um að þetta sé óhjákvæmilegt. Þess vegna er mjög mikilvægt að þau miklu þjónustufyrirtæki fólksins verði í eigu fjöldans. Það blasir við og þýðir ekki að berjast við það að ríkið verður að fara út úr slíkum rekstri. Hvernig er hægt að sjá til þess að Síminn verði í eigu fjöldans og vel rekinn? Ég sé lífeyrissjóði fyrir mér í þeim efnum. Ég er því ekkert kvíðinn hvað framtíðina varðar. Mér finnst hún glæsileg og björt. En hlutverk okkar, alþingismanna og ríkisvaldsins, er að stækka á því sviði að veita aðhald og sjá um að samkeppnin sé eðlileg í landinu.