Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:40:49 (8292)

2001-05-19 11:40:49# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hæstv. utanrrh. þegar hann segir að lífið sé áhætta. Það er kannski það sem gerir lífið þess virði að lifa því, að það skuli ekki liggja fyrir nákvæm forskrift um hvernig það muni þróast og hvernig það muni dafna.

Hins vegar vísaði hæstv. utanrrh. í orð Abrahams Lincolns þar sem hann sagði að enginn bannaði manni að vera vitrari í dag en í gær, svona í efnislegri túlkun. Einmitt þar skilur á milli okkar í Samfylkingunni og Framsfl., sem lengi vel þrammaði þó í takt í þessu Landssímamáli.

Ég spyr: Hvað gerði það að verkum að Framsfl. og formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., litu svo á að sýnt hefði verið fram á það með rökum að það að selja fyrirtækið í einu lagi muni þrátt fyrir umhverfi sem við horfum upp á tryggja að hér verði samkeppni eftir að sölunni lýkur? Út frá hvaða forsendum getur hæstv. ráðherra haldið því fram að hér sé ekki verið að einkavæða einokun, eins og hæstv. ráðherra komst að orði? Nákvæmlega þeim rökum hefur verið kallað eftir í allri þessari umræðu. Hvað veldur því að menn geta með góðri samvisku sagt að samkeppni muni haldast hér þegar selt er í einu lagi fyrirtæki sem er með 85% hlutdeild af tekjum og á stóran hlut í 36 öðrum fyrirtækjum á þessum litla markaði? Víðast hvar í veröldinni eru 30% yfirráð talin markaðsráðandi staða. Við erum að tala um 85--95% markaðshlutdeild. Það fer eftir því hvernig orðið yfirráð er túlkað. Hvernig getur hæstv. ráðherra haldið því fram að hér sé ekki verið að einkavæða einokun?