Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 11:47:32 (8295)

2001-05-19 11:47:32# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel aðeins að tíminn einn geti leitt það í ljós hvernig þetta allt saman reynist og ég er sannfærður um að það mun liggja betur fyrir áður en ríkið selur meiri hluta í fyrirtækinu. Það er hins vegar ljóst að þetta fyrirtæki í ríkiseigu er mjög markaðsráðandi í dag. Og fyrir liggur að Ísland er afskaplega lítill markaður og þess vegna er þessi endalausi samanburður milli Íslands og annarra landa ekki alltaf raunhæfur. Við erum lítið þjóðfélag, búum miklu lengra frá öðrum þjóðum en gengur og gerist. Þess vegna eru aðstæður okkar ekki þær sömu. Við erum hins vegar hluti af sama samkeppnisumhverfinu, lútum sömu reglum og verðum þess vegna að taka mið af því. En það hljóta alltaf að verða þær aðstæður hér á landi að hættara sé við því að hér séu mjög markaðsráðandi fyrirtæki en gengur og gerist meðal stærri þjóða. Þess vegna er eftirlitið afskaplega mikilvægt, Samkeppnisstofnun afskaplega mikilvæg og mér finnst stundum að verið sé að hnýta í þessa stofnun að óþörfu vegna þess að hún er að stíga sín fyrstu skref og stofnunin kemur til með að gegna mjög mikilvægu hlutverki í framtíðinni og það ber að styrkja hana.

Það sama á við um Póst- og fjarskiptastofnun. Þetta eru stofnanir sem munu skipta miklu máli og þegar við verðum komin inn í þetta nýja samkeppnisumhverfi af fullum krafti, mun þýðing þessara stofnana fara mjög vaxandi.