Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 12:03:01 (8299)

2001-05-19 12:03:01# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði út í þetta vegna þess að viðhorf þeirra sem komu fyrir samgn. voru mismunandi. Þeir aðilar af landsbyggðinni sem við töluðum við hafa rekið þessa þjónustu og svona fyrirtæki á landsbyggðinni og þeir lögðu allir til að grunnnetið yrði skilið frá áður en til sölu Landssímans kæmi. Það var með öðrum orðum mjög mikill munur, himinn og haf, á milli álits þessara aðila og svo þeirra aðila sem komu af höfuðborgarsvæðinu, þar sem samkeppni er sannarlega í grunnnetinu, hvort sem það er vegna Línu.Nets eða annarra fyrirtækja. Sem betur fer hefur þar skapast samkeppni. Við sjáum að höfðborgarbúar njóta þess allsvakalega og munu fá mikið forskot.

Ég hef talað um að áhyggjur okkar séu af því að Íslendingar muni ekki allir sitja við sama borð hvað þessi atriði varðar. Það er einmitt svo, herra forseti, að samkeppnishæfni svæða skiptir höfuðmáli. Ég mun koma að því í ræðu minni á eftir.

Ég vildi aðeins segja, vegna þessa andsvars frá hæstv. samgrh., að það var greinilega mikill munur á skoðunum þeirra sem fyrir nefndina komu eftir því hvaðan þeir komu af landinu. Áhyggjur manna af landsbyggðinni voru greinilega miklar, bæði af núverandi ástandi og af framtíðinni.

Í lokin vil ég því bara segja: Hefur hæstv. samgrh., sem er þingmaður af landsbyggðinni og í nýju og stærra kjördæmi, ekki áhyggjur af því að íbúar landsbyggðarinnar muni ekki sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarinnar í framtíðinni varðandi þessa nýju tækni?