Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 12:05:17 (8300)

2001-05-19 12:05:17# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hafi þingmenn lesið frv. og fylgigögn þess hljóta þeir að sjá að ég hef haft áhyggjur af þessu. Það birtist í verkum mínum, m.a. því að ég hef gert samning við Landssímann um að hann lækki verulega gagnaflutningagjaldskrána og beiti þeirri tækni og nýti þann búnað sem Síminn hefur í þágu landsbyggðarfólks sem þarf á gagnaflutningum að halda.

Verðlag hefur breyst mjög mikið. Það hefur lækkað. Aðgerðir Símans, að nýta sér gagnaflutninga í gegnum ATM-netið og lækkun á verðskrá, hafa leitt til sama verðs innan allra svæða og síðan er fast verð á milli svæða, óháð vegarlengd. Þar með er komið til móts við þessa hagsmuni. Í einkavæðingarnefndarskýrslunni kemur fram það mat nefndarinnar að skoða beri hvort gjaldskrár gagnaflutninga eigi ekki að miðast við magn fremur en vegalengdir. Þetta er verkefni sem samgn. fjallaði mjög rækilega um í umfjöllun sinni og samgrn. hefur að undanförnu unnið að því að við getum nýtt þessa tækni, margmiðlunar- og fjarskiptatæknina, um landið allt án þess að verðþröskuldar komi í veg fyrir það.