Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:00:11 (8313)

2001-05-19 14:00:11# 126. lþ. 129.14 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv. 76/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Árna Johnsen, frsm. samgn., um eitt atriði í þessum tillögum. Það snýr að því að í 8. lið er sagt að það skuli hækka réttindi úr 50 búttótonnum í 65 brúttótonn. Ég vil spyrja hv. þm. hvort þetta sé ekki ákveðinn misskilningur sem þarna birtist og hvort þessi sérstaka útfærsla í 8. lið sé ekki óþörf. Ég bið hann þá að skýra það út fyrir mér hvers vegna hennar er þörf ef ég hef rangt fyrir mér. Því að í 9. gr. frv. er beinlínis tekið á þeim vanda sem gæti hugsanlega myndast ef mælingarreglur skipa, breyting á mælingum skipa leiðir til þess að maður sem hafði réttindi samkvæmt 30 brúttórúmlesta viðmiðun missir réttindin vegna breytinga í brúttótonn, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nú hefur skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa samkvæmt brúttórúmlestaviðmiðun á skipi`` --- en við erum að breyta þessari brúttórúmlestaviðmiðun í brúttótonnamælingu --- ,,sem vegna breytinga á mælingum skipa mælist stærra en eldra skírteini hans veitti réttindi til eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi og er þá heimilt að veita honum skírteini til starfa á sama skipi eða skipi sem eins háttar um að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.``

Ég fæ ekki annað séð, herra forseti, en 9. gr. taki algjörlega á því tilviki sem hér er lagt til í brtt., úr 50 tonnum í 65 brúttótonn, og tel í raun og veru að hún sé óþörf vegna þess að þetta er tryggt að menn sem hafa eldri skírteini miðað við eldri viðmiðun halda réttindum sínum.