Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:04:10 (8317)

2001-05-19 14:04:10# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó að skýrslan sé að sönnu gerð að ósk Samfylkingarinnar vil ég byrja á að þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hafa komið henni frá sér fyrir lok þingsins. Meginniðurstaðan í skýrslunni er að í atvinnulífinu eru skýr merki um pólitískt tengdar blokkir sem gæta sérhagsmuna sem Samfylkingin hefur alltaf barist gegn. Og kolkrabbinn blessaði, hann lifir og hann dafnar. Honum er lýst svo í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Stærstu fyrirtækin á sviði trygginga, olíuverslunar, flutninga og ferðaþjónustu tengjast með gagnkvæmu eignarhaldi. Stjórnunartengsl eru einnig mikil þar sem sömu aðilar sitja í stjórnum þessara fyrirtækja og veita þeim forustu.``

Herra forseti. Ég þori að leggja höfuð mitt að veði fyrir því að næstum hver einasti stjórnarmaður sem er talinn upp í tengslum við þessi fyrirtæki er líka félagi í Sjálfstæðisflokknum. Og svo djúpt teygir kolkrabbinn arma sína að verkalýðshreyfingin er líka notuð til að styrkja hann. Lífeyrissjóður verslunarmanna fjárfestir nægilega grimmt í fyrirtækjum kolkrabbans svo að Samkeppnisstofnun segir að það sé eðlilegt að spyrja hvað hafi verið haft að leiðarljósi við fjárfestinguna. Og hins sama er líka spurt varðandi fjárfestingar Samvinnulífeyrissjóðsins í fyrirtækjum sem áður tengdust SÍS.

Herra forseti. Í skýrslunni kemur fram merkileg staðreynd. Fyrirtæki sem tengjast kolkrabbanum, eins og tryggingafélagið Sjóvá-Almennar og Olíufélagið Skeljungur og Burðarás, sem er eign Eimskipa, hafa öll aukið fjárfestingu sína í útgerðarfélögum sem eru almenningshlutafélög og skráð á Verðbréfaþingi. Skýringin er augljóslega þessi: Þau eru að kaupa sér aðgang að viðskiptum fyrir vöruna og þjónustuna sem þau selja. En þá má spyrja: Er hagsmuna annarra smárra fjárfesta sem kaupa hlut í viðkomandi útgerðarfélögum, e.t.v. sem hluta af sínum ævisparnaði, nægilega gætt með lögum eða opinberum reglum? Í gegnum eignarhald sitt láta þessi fyrirtæki útgerðirnar kaupa þjónustu eða vöru sem hefði e.t.v. verið hægt að fá ódýrara með útboðum. Og hver tapar, herra forseti? Litli fjárfestirinn meðan stóru eigendurnir sem tilheyra kolkrabbanum hygla sjálfum sér.

Við vitum líka, herra forseti, að nýjar blokkir eru að myndast í kringum ný fyrirtæki. Ég gæti nefnt Norðurljós og Baug. Norðurljós, herra forseti, eru með yfirburðastöðu á markaði. Hæstv. ráðherra, hvar er Norðurljósa getið í skýrslunni? Ég finn þeirra hvergi getið. Getur verið, herra forseti, að fyrirtæki komi sér hjá úttekt eins og er að finna í skýrslunni með því einu að neita að veita upplýsingar? Baugur er svo algerlega sér á parti. Árið 1993 voru Hagkaup og Bónus með þriðjung af markaðnum. Nú er Baugur með rúmlega helming á landsvísu og ríflega 60% af markaði á höfuðborgarsvæðinu. Nú eru tvær keðjur með 67% allrar smásölu á matvælum.

Eigum við að skoða hvaða áhrif það hefur haft á álagningu? Það getum við nefnilega lesið úr annarri skýrslu sem Samkeppnisstofnun hefur tekið fyrir til þess að gera úttekt á álagningu milli 1996 og 2000. Og þá kemur í ljós að álagning á brauði hækkaði um 17--18% meðan verð frá birgjum stóð í stað. Nautakjöt hækkaði í smásölu um 13--14% en helmingi minna frá kjötvinnslum. Lambakjöt hækkaði um 30--35% en bara 13--14% frá kjötvinnslum. Svínakjötið lækkaði að vísu í búðunum um 5--7% en frá bændunum lækkaði það um 27%. Verð á eggjum hækkaði ekki neitt en á sama tíma lækkuðu eggin samt um 12--14% frá framleiðendum. Ávaxtasafi hækkaði um 12--14% í smásölu en hann hækkaði ekkert frá heildsölum. Og gosdrykkir hækkuðu um 11--13% en ekkert hjá framleiðendum. Og svona gæti ég haldið áfram að telja.

Herra forseti. Niðurstaða mín er því sú að óhófleg samþjöppun á smásölumarkaði hafi leitt til fákeppni sem hefur stórskaðað neytendur með óhóflegu verði. Við erum að borga allt of mikið fyrir matinn okkar af því tvær keðjur hafa hreðjatak á neytendum. Og þetta hreðjatak kostar okkur neytendur milljarða króna.

Skýrslan staðfestir einfaldlega allt sem Samfylkingin hefur sagt um samkeppni, samþjöppun og fákeppni í tengslum við stórfyrirtæki Sjálfstæðisflokksins. Meira að segja lífeyrissjóðir eru hluti af pólitísku neti flokksins sem lykur gegnum allt samfélagið, allt atvinnulífið.

Ég vil að lokum varpa eftirfarandi spurningum til hæstv. viðskrh.: Telur hún að vísbendingar séu um að lífeyrissjóðir séu notaðir til að styrkja áhrif blokka í viðskiptalífinu, eins og Samkeppnisstofnun kallar það? Telur hún nauðsynlegt að setja sérstaka löggjöf um stöðluð útboð til að tryggja hag lítilla fjárfesta gegn ítökum blokka í t.d. útgerðarfyrirtækjum eins og ég lýsti áðan?

Og að lokum, herra forseti, með hvaða ráðum telur hæstv. ráðherra að hægt sé að koma í veg fyrir að keðjur á smásölumarkaði misnoti stöðu sína til að auka hagnað sinn á kostnað okkar neytenda?