Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:14:44 (8319)

2001-05-19 14:14:44# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Niðurstöður skýrslu Samkeppnisstofnunar koma í sjálfu sér ekki á óvart, en þær eru gagnleg kortlagning á aðstæðum í íslensku atvinnulífi og það er fróðlegt m.a. að bera þær saman við niðurstöður fyrir skýrslu frá miðjum síðasta áratug. Einkunnarorðin sem íslenskt atvinnulíf fær eru skýr: Vaxandi samþjöppun og fákeppni. Í olíuverslun, samgöngum, tryggingastarfsemi og fleiri sviðum hefur samþjöppunin haldist eða heldur aukist og ný fákeppnissvið hafa verið að skapast, t.d. í almennri verslun og í upplýsingatæknigreinum. Samkeppnisstofnun varar við þessum aðstæðum og hefur oft bent á hversu erfitt sé að glíma við þær, ef þeim er leyft að skapast. En ríkisstjórn Íslands, herra forseti, tekur ekkert mark á þessum niðurstöðum. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er á fullri ferð við að bæta við, búa til ný fákeppnis- eða einokunarsvið, í bankastarfsemi og fjarskiptum.

Enn eitt svið, herra forseti, þar sem samþjöppun er vaxandi er í sjávarútveginum. Þar hafa veiðiheimildir og fjármagn sópast saman á undanförnum árum og nú stendur til að reka nokkurn veginn smiðshöggið á verkið með því að kvótasetja veiðar smábáta og undirbúa að einnig þau veiðiréttindi verði hægt að fara að kaupa upp.

Herra forseti. Ríkisstjórnin með viðskiptaráðherra og samgrh. í broddi fylkingar þessa dagana veður áfram, blinduð af nýfrjálshyggjukreddum og er að búa til ný fákeppnis- og einokunarsvið í íslensku atvinnulífi. ,,Næstum allt er falt``, segir viðskrh. í Morgunblaðinu í dag.

Herra forseti. Það er vandlifað í heimi hér og einkum ef maður heitir Samkeppnisstofnun. Ríkisstjórnin gerir hvort tveggja, að skamma hana og spotta og gagnrýna skýrslur hennar þegar það á við, en setja allt sitt traust á hana þegar það hentar og hún er að búa til ný fákeppnissvið eins og í fjarskiptamálunum. Þá á sama Samkeppnisstofnun sem oft er óalandi og óferjandi að leysa allan vanda.