Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:23:57 (8323)

2001-05-19 14:23:57# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir skýrslu Samkeppnisstofnunar sem er fróðleg fyrir margra hluta sakir þótt ég setji spurningarmerki við sitthvað í samanburðarfræðunum.

Það sem helst kemur fram í þessari skýrslu er að staðfest er að fákeppni og einokun er einkennandi fyrir íslenskt atvinnulíf en það kemur líka fram að hlutur hins opinbera er mikill. Á því vekur hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sérstaklega athygli í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, tók bakföll einmitt út af þessu. En hvar skyldi veltan vera mest hjá hinu opinbera? Hún er mest hjá Íbúðalánasjóði. Þarna er líka ÁTVR. Þarna er Ofanflóðasjóður. Þarna er líka Námsgagnastofnun. En þarna eru líka vissulega fyrirtæki og stofnanir sem eru á leiðinni út á markað.

Við ræddum í morgun einkavæðingu Landssímans. Í gær fjölluðum við um bankana sem eiga að fara út á markað. Við höfum rætt hvað muni gerast á þessum markaði. Samkeppnisstofnun hefur það hlutverk að reyna að sporna gegn einokun á markaði en hún hefur takmörkuð tök á því að öðru leyti en því að reyna að hafa áhrif þar á aðstæður, að hafa áhrif þar á aðstæður. Hún hefur varað við því og samkeppnisaðilar hafa varað við því að ríkisstjórnin sé með einokunarstefnu sinni að einkavæða einokun. Hún sé ekki að draga úr einokun eða stuðla að samkeppni, hún sé að bæta í. Hún sé að bæta í. Hún sé að stuðla að fákeppni og einokun á markaði. Það er áhyggjuefni.