Stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:32:37 (8327)

2001-05-19 14:32:37# 126. lþ. 129.96 fundur 575#B stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég dáist mjög að hv. þingmönnum hvað þeir eru búnir að setja sig inn í þessa skýrslu, miðað við hvað hún barst seint í hendur þeirra, sem ég baðst nú afsökunar á í gær.

Við lok þessarar umræðu vil ég fyrst vitna til orða hv. þm. Ágústs Einarssonar sem sagði hér að ríkið vildi draga sig út úr atvinnurekstri og það væri stefna Samfylkingarinnar. Það vill svo til að síðasta sólarhringinn höfum við verið að afgreiða hér tvö merk mál um sölu ríkisfyrirtækja. (Gripið fram í: Stórmál.) Bæði var samþykkt að selja Landssímann og bankana bara síðasta sólarhringinn. Samfylkingin styður hvorugt þessara mála. (Gripið fram í: Við erum á móti þeim.) Mér sýnist því að (Gripið fram í.) athafnir fylgi ekki alveg orðum hvað þetta varðar. (Gripið fram í.)

Eins vil ég nefna orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem segir að ríkisstjórnin sé að búa til ný svið fákeppni á bankasviðinu. Ég hef áður úr þessum ræðustól vitnað til orða hv. þm. sem hann viðhafði fyrir nokkrum missirum þar sem hann fullyrti að sameina ætti Landsbankann og Búnaðarbankann og það þýddi ekki að bera við einhverjum sjónarmiðum fákeppni og að ekki yrði næg samkeppni þó svo að þetta yrði gert. Þetta sagði þessi hv. þm. hér fyrir nokkrum mánuðum síðan. Nú þegar ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að selja bankana sinn í hvoru lagi, og það var nú það sem Samfylkingin vildi gera hérna fyrir jólin, þá er það ekki aðferðin sem viðkomandi þingmenn geta stutt. Það er dálítið vandlifað.

Ég held að það sé athyglisvert líka sem hefur verið vikið að hér, að þrátt fyrir að ríkið hafi selt í fyrirtækjum þá hefur ríkið verið að auka mjög eignarhlut sinn í atvinnulífinu á milli þessara ára og það sýnir okkur kannski enn betur en við vissum áður að við eigum að halda áfram að selja ríkisfyrirtæki.