Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 14:35:17 (8328)

2001-05-19 14:35:17# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, Frsm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Frsm. heilbr.- og trn. (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, frá heilbr.- og trn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið fjölda gesta til liðs við sig, m.a. frá heilbr.- og trmrn., Félagi eldri borgara í Reykjavík, Tryggingastofnun ríkisins og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Með frumvarpinu er kveðið á um hækkun á grunnlífeyri hjóna úr 90% af lífeyri einhleypings í 100%. Sérstök heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð er felld niður en í stað hennar er innleiddur nýr bótaflokkur, svokallaður tekjutryggingarauki. Hinn nýi bótaflokkur skilar öryrkjum og öldruðum sem rétt eiga á honum hærri upphæð en sérstaka heimilisuppbótin gerði. Í fyrsta lagi nemur fullur tekjutryggingarauki hærri fjárhæð en sérstaka heimilisuppbótin gerði og í öðru lagi lækkar skerðing vegna eigin tekna, eða helmings samanlagðra tekna ef lífeyrisþegi er í hjúskap, úr 100% í 67%. Þá njóta bæði einhleypingar og sambýlisfólk tekjutryggingaraukans, en sérstaka heimilisuppbótin náði aðeins til einhleypinga. Loks felst það í frumvarpinu að eingöngu 60% atvinnutekna teljast til tekna lífeyrisþega við útreikning á tekjutryggingu og heimilisuppbót, en nú teljast allar atvinnutekjur til tekna lífeyrisþega við útreikning þeirra.

Frumvarpinu fylgja einnig drög að tveimur reglugerðum. Fyrri reglugerðin felur í sér að frítekjumark tekjutryggingar til ellilífeyrisþega hækkar og sérstakt frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum er lagt niður. Síðari reglugerðin felur í sér að frítekjumarkið samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækkar úr 105.347 kr. í 112.000 kr. til þess að hækkun bóta samkvæmt frumvarpinu minnki ekki rétt til frekari uppbóta samkvæmt þeim lögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að bætur til aldraðra og öryrkja hækki um 1.350 millj. kr. á ári. Breytingarnar fela í sér að þeir sem lægstar hafa bæturnar fá mest en hinir tekjuhærri minna.

Þannig er áætlað að um 70% ellilífeyrisþega fái einhverja hækkun með þessum breytingum og að 4.000 einhleypir, 800--850 hjón sem bæði eru ellilífeyrisþegar og 100 hjón þar sem annað er ellilífeyrisþegi fái tekjutryggingarauka. Þá munu 60% öryrkja fá einhverja hækkun og um 2.600 örorkulífeyrisþegar fá tekjutryggingarauka.

Nefndin lítur svo á að með þessu sé stigið umtalsvert skref í þá átt að bæta kjör þeirra sem verst eru settir meðal aldraðra og öryrkja.

Nefndin leggur til að orðalag 3. gr. frumvarpsins verði lagfært. Engin efnisbreyting er fólgin í breytingunni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem liggur frammi á nefndarálitinu.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, hv. þm. Karl V. Matt\-híasson og hv. þm. Þuríður Backman skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Jónína Bjartmarz, Katrín Fjeldsted, Ásta Möller, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Tómas Ingi Olrich, Magnús Stefánsson og þingmennirnir Ásta R. Jóhannesdóttir, Karl V. Matthíasson og Þuríður Backman með fyrirvara.