Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:18:48 (8340)

2001-05-19 15:18:48# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, Frsm. ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Frsm. heilbr.- og trn. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. að þetta frv. er framfaraspor. Hv. þm. hafði áhyggjur af þeim hópum þar sem almannatryggingabæturnar hækka ekki í þetta skipti. En ég held ég verði að benda á að það verði að skoða áhrif frv. í heild sinni og skoða heildarmyndina í þessu dæmi.

Eitt meginframfaraskrefið í þessu frv. eru auknir möguleikar öryrkja og aldraðra að afla sér eigin tekna. Frítekjumarkið er hækkað úr 33 þús. í 55 þús. kr. þannig að möguleikar lífeyrisþegans til að afla sér tekna og halda eftir auknu fé af tekjum sínum eru verulega auknir. Þeir fá því meira svigrúm til að afla sér eigin tekna. Þó að bæturnar hækki ekki frá almannatryggingakerfinu þá hækka ráðstöfunartekjur þeirra vegna hins aukna svigrúms til að afla sér tekna við hækkun á frítekjumarki.

Annað atriði sem ég vildi líka benda á er spurningin um hækkun á bótum, við hvað er miðað. Gegnum tíðina hefur verið miðað við launaþróun á almenna markaðnum. Fyrir 1997, fyrir 1995 og svo langt aftur sem menn muna nánast hefur verið miðað við launaþróunina á almenna markaðnum. Þegar verið er að tala um að miða við annað, launavísitöluna yfir bæði opinbera og almenna markaðinn, er það ný viðmiðun þykir þeim sem halda því fram að taka ætti þá viðmiðun upp, að það er þá eitthvað sem er annað en áður hefur verið. Ég hlýt að benda á þetta.