Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:25:18 (8343)

2001-05-19 15:25:18# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Varðandi það sem hv. þm. sagði áðan um nýtt viðmið þá er það viðmið ekki nýrra en svo að það er frá 1998. Þar var gert ráð fyrir að hægt væri að nota tvenns konar viðmið í þróun launa. Það kom einmitt fram hjá hæstv. forsrh. þá að miðað skyldi við það sem betur gæfi. Það hefur verið launavísitalan hingað til.

Ég talaði um að verið sé að fara fetið, vissulega er verið að fara í áttina. Það kostar að vera með velferðarkerfi, það kostar peninga. Hv. þm. gerir að umtalsefni tillögur Samfylkingarinnar við fjárlagagerðina. Þar vorum við að leggja til mun hærri upphæðir en ríkisstjórnin gerði og það var alveg í ákveðnum tilgangi. Það var ekki til að búa til tekjutryggingarauka sem skilaði sér ekki til þeirra sem verst eru settir og eru þó að reyna eitthvað að afla sér fjármuna eins og fatlaðir á vernduðum vinnustöðum. Það var ekki þannig. Það var gert ráð fyrir því að þessi hækkun næði til allra, það færi á tekjutrygginguna þannig að þetta skilaði sér þá til þorra hópsins fyrir utan að hluti af tillögum Samfylkingarinnar við fjárlagagerðina var að afnema algjörlega tekjutengingu við tekjur maka. Til þess voru þessar fjárlagatillögur settar fram.

En sú varð því miður ekki raunin því þó svo að hæstv. ríkisstjórn hefði fengið dóm yfir sig um að hún skyldi gera svo þá var allra bragða beitt til að þurfa ekki að fara að lögum, fara að dómum og afnema þessa tekjutengingu við tekjur maka.