Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:27:13 (8344)

2001-05-19 15:27:13# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat um það að lágmarkslaun hefðu hækkað meira en lífeyrir. Árið 1995 voru lágmarkslaun um 45 þús. kr. Það hefur verið í nösunum á verkalýðshreyfingunni alla tíð að hækka lágmarkslaun. Það hefur aldrei tekist vegna þess að hækkunin fór inn í alla taxta, upp allan skalann, þar til núna nýverið, 1996, 1997 o.s.frv., að þá hefur tekist að hækka lágmarkslaun. Það var gert með því fororði, herra forseti, að það hefði ekki áhrif á aðrar bætur eða laun.

Það er nefnilega þannig að það voru og eru nokkrir einstaklingar á þessum lágmarkslaunum, aðallega eldri konur sem voru að byrja aftur í atvinnulífinu. Það var skömm að því hve lágmarkslaunin voru lág. Nú hefur tekist að hækka lágmarkslaunin. Ég skil ekki í fólki að leyfa sér að nota hækkun lágmarkslauna, sem var sérstök aðgerð, í samanburði við aðra þróun á launum eða bótum. Það var markmið manna að nota ekki hækkun lágmarkslauna í samanburði við aðrar bætur eða laun.

Þá gat hv. þm. þess að lítill munur væri á þeim sem greitt hefði í áratugi í lífeyrissjóð og þeim sem væri bara á bótum, sem hefði jafnvel komið sér hjá því að borga í lífeyrissjóð. (ÁRJ: Ég sagði ekkert um það.) En ég segi það, það hefur fjöldi manns komið sér hjá því með því að gera samkomulag við atvinnurekanda sinn um að fá 6% greidd út og borga ekki 4% í lífeyrissjóð. Menn hafa komið sér hjá því að borga í lífeyrissjóð. Þessi munur er orðinn afskaplega lítill og það er rétt hjá hv. þm.