Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:29:11 (8345)

2001-05-19 15:29:11# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta ætla ég að taka hér fyrst. Ég var bara að benda á það sem við búum við þegar við erum með kerfi eins og íslenska kerfið þar sem við erum með þessar miklu tekjutengingar. Auðvitað verður þetta ekki vandamál í framtíðinni nema að mjög litlu leyti vegna þess að lífeyrissjóðirnir munu taka yfir stóran hluta af ellilífeyrisgreiðslunum þegar fram í sækir.

En aftur á móti er það svo að enn eru allmargir sem hafa ekki neitt úr lífeyrissjóði þannig að við verðum að búa við þetta á meðan það er stór hópur sem hefur ekkert sér til framfærslu nema almannatryggingarnar.

Ég ætla ekkert að vega það og meta hvort menn hafi komið sér hjá því að greiða í lífeyrissjóð eða ekki. Sjálfsagt hafa einhverjir komið sér hjá því og aðrir hafa ekki haft tök á því eins og margar konur sem hafa verið húsmæður í gegnum lífið og ekki verið úti á hinum almenna vinnumarkaði og ýmsir sem hafa verið fatlaðir alla ævi o.s.frv. þannig að þeir þurfa auðvitað að búa við þessar greiðslur.

Aftur á móti veit ég ekki hvað ég á að fara langt í umræðunni um lágmarkslaunin og lífeyrisgreiðslurnar. Það er bara grundvallaratriði að lífeyrisþegar, sem hafa ekkert annað fyrir sig að leggja en almannatryggingarnar, hafi þá a.m.k. lágmarksframfærslu og það er miðað við þessi lágmarkslaun. Ég benti á töflu sem við fengum frá öldruðum á fundum nefndarinnar núna þegar við vorum að vinna þetta mál. Þar sést hvernig lágmarkslaun verkamanna og lífeyrisgreiðslurnar hafa þróast og þarna er gífurlegur munur á milli þó svo að það segi fyrir um það í lögum að fylgja skuli launaþróun og þar er ekki við annað að miða en launavísitöluna.