Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:33:04 (8347)

2001-05-19 15:33:04# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við getum velt þessu fyrir okkur á ýmsan hátt. Hv. þm. segir að það sé fólkið með lægstu launin sem greiði almannatryggingabæturnar. Þetta er nú orðið snúið þegar þeir sem eru með lægstu almannatryggingabæturnar eru farnir að borga heilar mánaðargreiðslur aftur í skatta. Eiginlega má segja að lífeyrisþeginn sé sjálfur farinn að greiða tryggingabæturnar, þannig að þetta er orðið dálítið fáránlegt. Það er auðvitað það sem maður hefur verið að vekja athygli á að með því að láta lífeyrisþegann greiða heilar mánaðargreiðslur til baka til ríkisins þá erum við auðvitað komin út í ansi mikla hringavitleysu og það væri nær að taka á þessum þáttum og skoða. Ég hef hvatt hæstv. ráðherra til að láta skoða þetta þegar hann fer að athuga þessi mál í sumar og að það verði tekið á þessu og við hættum þessari hringavitleysu, að láta öryrkjana greiða almannatryggingarnar, eins og þetta er orðið, þó að þeir hafi engar aðrar tekjur en úr almannatryggingunum.

Varðandi hækkun lægstu launa með því fororði að það ætti ekki að hækka bætur þá er ég ekki sátt við að sú leið sé farin. Það stendur í lögunum, og við verðum auðvitað að fara að lögum, að bætur almannatrygginga skuli fylgja launaþróun (Gripið fram í.) og launaþróun er launavísitala og það hefur ekki verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er til skammar og auðvitað þarf að bæta það. Það er alveg ljóst, eins og launahækkanir hafa verið undanfarið, að það er orðið tímabært að almannatryggingabætur hækki einnig. Þær hækkuðu aðeins um 4% um áramót en hvað hafa laun verið að hækka undanfarið og eru að hækka núna? Það kallar aðeins á frekari hækkanir almannatryggingabóta og ríkisstjórnin kemst ekki hjá því að standa við það.