Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 15:35:40 (8348)

2001-05-19 15:35:40# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið talað fyrir nál. um frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara ásamt þeim hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, sem fór yfir athugasemdir og fyrirvara minni hlutans, og Karli V. Matthíassyni, hv. þm. Samfylkingarinnar.

Mig langar til þess að hlaupa yfir fyrirvara okkar, ég vil ekki gera það í löngu máli vegna þeirra aðstæðna sem við erum í í dag. Klukkan er orðin rúmlega hálffjögur og okkur gengur lítið með þau 53 mál sem hér eru á dagskrá og upphlaup hér á þinginu, má segja. Samt sem áður hefði verið full ástæða til að gefa þessu máli sérstakan gaum og gefa okkur tíma til að ræða það og stöðu öryrkja og ellilífeyrisþega og fara vel yfir hvað þessar breytingar munu færa þeim. En því miður kom þetta frv. það seint fram og við erum að ræða það núna á þeim tíma sem er hreinlega ekki aðstaða til þess að fara vel í málið, því miður. En hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði það vel hér áðan svo að ég ætla ekki að fara mjög ítarlega í það.

Herra forseti. Hér er verið enn og aftur að setja eina bótina til viðbótar í okkar stagbættu löggjöf um almannatryggingar. Það verður að segjast eins og er að það olli mér, og ég veit mörgum fleirum, miklum vonbrigðum að sú endurskoðun laganna sem átti að líta hér dagsins ljós skyldi vera með þeim hætti að ekki hefði verið hægt að fara betur ofan í saumana og gera heildrænni breytingar en hér hafa verið gerðar. Það er ekki allur pakkinn sem hér er kynntur því að einnig munu koma fram breytingar í haust sem lúta að sveigjanlegum starfslokum og því ber auðvitað að fagna.

Við sem erum í stjórnarandstöðu leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn þessum breytingum en vegna þeirra mismunandi sjónarmiða sem endurspeglast í stjórn og stjórnarandstöðu teljum við að þarna þurfi að ganga lengra, ekki eingöngu með því að bæta kjör þeirra lægst launuðu, sem þessar bætur miðast allar við --- og í sjálfu sér setur maður ekki út á það --- en það sem vantar og ágreiningur okkar er um, það er að bæta í heildina kjör lífeyrisþega, að hækka grunnlífeyristryggingarnar, að hækka tekjuviðmiðunina og það þarf að hækka skattleysismörkin. Þegar ekki er farið í þessar breytingar heldur eingöngu --- og kannski ber manni að huga að þeim sem minnst mega sín --- verið að laga eða jafna tekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, þá setjum við mikinn fyrirvara við að þessar breytingar verði til lengri tíma. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. heilbrrh. og hvetja hann til að halda þessari endurskoðun áfram, að koma ekki eingöngu með breytingar hvað varðar sveigjanleg starfslok, að á næsta vetri komi fram einhver heildstæðari mynd á endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar þar sem tekið er á grunnlífeyri ellilífeyrisþega og öryrkja, það er það sem vantar.

Helstu bæturnar koma á tekjutryggingaraukann, það er nýtt heiti á bótaflokki sem hét sérstök heimilisuppbót og var undir félagslöggjöfinni. Það er til bóta að þessi bótaflokkur er tekinn þaðan, það er bara heimild varðandi félagsþjónustu sveitarfélaga að nota sérstaka heimilisuppbót en um leið og það er komið í almannatryggingalöggjöfina þá er þetta skylda. Þarna eru vissulega réttarbætur og því ber að fagna.

Það eru nokkuð brött skerðingarákvæði hvað varðar skerðingu vegna tekna. Skerðingarákvæðin eru sem sagt 67% núna en voru 100% --- herra forseti, nú er ég alveg hreint farin að ruglast í þessu hér, og er kannski ekki skrýtið því það sem er til bóta er tekjutryggingin, hún skertist um 100%, það var króna á móti krónu, en núna skerðist hún um 67% í staðinn fyrir 100% til öryrkja. Vissulega ber að fagna því að þetta sé minni skerðing en þessar stagbætur, sérstaklega í 17. gr., gera þetta hreinlega óskiljanlegt. Og það veit ég að sérfræðingar Tryggingastofnunarinnar viðurkenna að þessar breytingar verða ekki til þess að auðvelda þeim verkin við að reikna út bæturnar.

Ég vil að það komi hér fram að ekki er meiningin að auglýsa eftir umsóknum heldur munu þær bætur sem hér koma til verða reiknaðar bara út á ellilífeyris- og örorkuþega, sem ég tel að sé mjög gott því að það er þannig að fólk áttar sig ekkert á rétti sínum og það yrðu örugglega töluverð vanhöld á því að fólk sækti um.

Ég er með heilmikið efni sem gæti nýst í mjög langa ræðu en þetta stendur upp úr --- að ég get ekki tekið undir að þetta sé umtalsvert skref í þá átt að bæta kjör þeirra sem verst eru settir meðal aldraðra og öryrkja og alls ekki þegar litið er til hópsins alls, allra þeirra sem þiggja bætur úr þessum bótaflokkum, að þá eru þetta takmarkaðar bætur en vissulega er þetta í heildina upphæð upp á 1 milljarð og 350 millj. á ársgrundvelli. Það segir okkur kannski miklu frekar hvað heildarbætur eða bætur til þessara lífeyrisþega hafa dregist mikið aftur úr.

Varðandi þau ummæli sem hér voru höfð í frammi áðan um hækkanir á bótum lífeyrisþega og að það eigi ekki að miða þá hækkun við hækkun á launum þeirra lægst launuðu, sem fengu umtalsverðar hækkanir síðast, þá er ég ósammála því. Grunnlífeyrir er það lágur að ef einhver viðmiðun á að vera í launaskalanum hvar hækkanirnar eiga að liggja þá auðvitað á viðmiðunin að vera við lægstu launin því að þar liggja bæturnar. Það er bara pólitískur ágreiningur hjá okkur um það hvort eingöngu eigi að hugsa um þá sem verst eru settir, þessi ölmusuhugsun, eða hvort það eigi að hafa þá stefnu í grunninn að bæta kjör hins almenna lífeyrisþega þannig að hann verði betur sjálfbjarga og að kjör hans verði þannig að hann þurfi þá minna að leita til opinberrar þjónustu hvað varðar félagslegan stuðning o.s.frv. Þarna liggur mikill og djúpur ágreiningur okkar á milli.

Herra forseti. Eins og ég segi væri hægt að hafa langa ræðu en ég vil bara taka undir áskoranir Öryrkjabandalagsins og frá fulltrúum ellilífeyrisþega og beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann skoði heildarlöggjöfina með tilliti til þeirra krafna sem þar koma fram.