Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 16:00:23 (8356)

2001-05-19 16:00:23# 126. lþ. 129.38 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð, sem felur í sér nokkrar breytingar á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim breytingum þar er gert ráð fyrir. Hér eru þó nokkrar upphæðir færðar inn í almannatryggingakerfið og bætt kjör þeirra sem þurfa að reiða sig á þetta kerfi að ýmsu leyti. Auk þess eru með frv. stigin fyrstu sporin í átt til kerfisbreytinga sem ég get vel fallist á. Þar nefni ég sérstaklega þá nýhugsun að draga hluta af atvinnutekjum öryrkja frá viðmiðunarreiknidæminu þannig að tekjutryggingin skerðist ekki fyrir bragðið. Mér finnst þetta skref fram á við. Fyrirkomulagið hingað til hefur dregið úr því að öryrkjar reyndu fyrir sér á atvinnumarkaði og afla þar tekna. Þess vegna finnast mér þessar kerfisbreytingar til góðs í eðli sínu.

Hins vegar hefði ég viljað stíga stærri skref að þessu leyti. Ég vek athygli á því að þegar rætt er um kjör og kjarabætur til elli- og örorkulífeyrisþega þá hættir okkur til að tala um þessar kjarabætur í einum pakka og horfa á almannatryggingar og framlagið til þeirra í heild, gagnstætt því sem við gerum á launamarkaði, þar sem við spyrjum hvað einstaklingurinn fái í sinn hlut, hvað hann fái mikla hækkun. Varðandi þennan hóp þá horfum við aftur á móti á útgjöld hins opinbera.

Ef við hins vegar lítum á þær lágmarkstekjur sem fólk hefur, annars vegar sem ellilífeyrisþegar og hins vegar sem örorkulífeyrisþegar, þá eru ellilífeyrisþegum nú tryggðar lágmarksbætur að upphæð 72.659 kr., en verða 79.312 kr., þ.e. tæpar 80 þús. kr. á mánuði hverjum. Tekjur sem einhleypum örorkulífeyrisþega eru tryggðar nú eru 73.546 en verða eftir þessar breytingar 80.199 kr. Það er ekki há upphæð.

Nú eru fyrirsjáanlegar breytingar í þessu kerfi á komandi árum. Staðreyndin er að sú ákvörðun var tekin fyrir nokkru að efla lífeyrissjóðina og allir gera sér grein fyrir því að það mun létta byrðar almannatryggingakerfisins þegar fram líða stundir. Þannig er það að öryrki sem slasast og býr við sæmilega sterkan lífeyrissjóð fær framreikning á lífeyrisgreiðslum sínum úr lífeyrissjóði og getur þar haft sæmilegar tryggingar. Hins vega gildir öðru um þann einstakling sem aldrei fer út á vinnumarkað. Hann verður að reiða sig á þær bætur sem koma frá almannatryggingakerfinu og þær eru að mínum dómi allt of lágar.

Ég tók eftir tvennu sem fram kom í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. í tengslum við þessa umræðu, sem mér finnst ástæða til að halda til haga. Hann segir að þetta sé fyrsta skrefið í miklu stærri endurskoðun á þessum lögum. Í annan stað hefur hann haldið því fram og lagt á það áherslu að þessar kerfisbreytingar eigi ekki að koma í stað almennra hækkana á bótum almannatryggingakerfisins, bæturnar eigi eftir sem áður að taka mið af launaþróun o.s.frv.

Mig langar til að segja tvennt varðandi endurskoðunina á almannatryggingalöggjöfinni. Fyrir alþingiskosningarnar 1995 bar þessi mál mjög á góma og stjórnmálaflokkarnir gáfu þar allir fyrirheit og loforð. En þegar til kastanna kom, ríkisstjórn hafði verið mynduð og stjórnarsáttmáli birtist, þá var því heitið að málið yrði sett í allsherjarskoðun. Ég átti sæti í nefndinni sem fyrst kom að því máli. Ég held að ég geti fullyrt að hún hafi komið saman tvisvar eða þrisvar sinnum og síðan ekki söguna meir. Síðan gerðist ekkert það kjörtímabil, ef ég man rétt. Það kunna að hafa verið gerðar einhverjar minni háttar breytingar á kerfinu. Auðvitað hafa menn endrum og eins gert breytingar en allsherjarendurskoðun fór ekki fram. Menn fóru síðan að nýju í kosningabaráttu á árinu 1999. Þá var aftur búinn til stjórnarsáttmáli og gott ef þar var ekki kveðið á um að endurskoðun skyldi fara fram. Nefnd var skipuð í málið og hún vann að þessari endurskoðun, við erum væntanlega að sjá fyrstu niðurstöður hennar í þessu frv.

Ég auglýsi hins vegar eftir miklu markvissari vinnu að þessari endurskoðun þannig að við fáum niðurstöður sem leiði til raunverulegra kjarabóta fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega. Mér fannst sláandi þegar fulltrúar lífeyrisþega, Landssambands aldraðra, annarra samtaka aldraðra og Öryrkjabandalagsins, komu á fund heilbr.- og trn., þ.e. hve vonsviknir þessir aðilar voru. Þeir höfðu búist við meiri kjarabótum en þarna er gert ráð fyrir. Eitt af því sem þeir lögðu áherslu á í máli sínu var þetta: Það gefur ekki rétta mynd að horfa aðeins á þær upphæðir sem okkar félagsmönnum eru ætlaðar --- ég var m.a. að vitna í þær --- heldur verða menn líka að horfa til aukins kostnaðar sem fellur á þessa hópa. Þeir bentu t.d. á að lyfjakostnaður hefur stóraukist og ekkert síður hjá þessum hópum, auk þess sem núna er krafist greiðslu fyrir ýmis lyf sem áður voru gjaldfrí. Þeir nefndu ýmsar aðrar greiðslur sem þessir hópar voru áður undanþegnir að greiða, útvarp, sjónvarp, sími o.s.frv. Tilhögun þess hefur breyst í seinni tíð. Þeir bentu á aukinn tilkostnað þeirra umfram aðra.

Þetta eru þau áhersluefni sem ég vildi vekja máls á við umræðuna. Þetta er afar lítið skref og þessir hópar eru mjög óánægðir með hve litlar bæturnar eru og telja þær engan veginn svara væntingum sínum. Hagsmunafélög þeirra hafa lagt fram ítarlegar skýrslur um þessi mál og ef hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ekki gert grein fyrir því þegar í sínu máli --- ég biðst afsökunar á því ef það hefur farið fram hjá mér --- þá mundi ég vilja að hann ítrekaði hvernig hann sér fyrir sér framvinduna og tímasetningar á umbótum í almannatryggingakerfinu. Bætur þær sem hér er um að ræða eru engan veginn fullnægjandi út af fyrir sig. Þær eru hugsanlega í einhverjum takti við lágmarkshækkanir í kjarasamningum sem verið er að gera þessa dagana. Þær svara engan veginn, eins og ég segi, þeim væntingum sem menn höfðu.

Við vitum að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja voru áður varin með bindingu við lágmarkskauptaxta, sem upp út miðjum tíunda áratugnum hækkuðu verulega og langt umfram vísitölu launa. Í því fólst sú skerðing sem öryrkjum og ellilífeyrisþegum hefur orðið tíðrætt um vegna þess að ef þeir hefðu verið bundnir lágmarkstöxtunum þá hefðu þeir fylgt þessum hópum og byggju núna við margfalt betri kjör en á varð raun.

Á þetta vildi ég leggja áherslu og þætti vænt um að hæstv. ráðherra ítrekaði, hafi hann áður gert það að umræðuefni, hvaða tímasetningar hann sjái og hver verði framvinda þessara mála.