Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 16:22:37 (8359)

2001-05-19 16:22:37# 126. lþ. 129.14 fundur 348. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (heildarlög) frv. 76/2001, GHall
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég ritaði undir nál. með fyrirvara og er það af þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess að þó að ekki sé allt eins og menn vildu hafa það í þessu frv. þá er mjög brýnt að ákvæði í því sem varða farþegaskip og flutningaskip taki gildi sem fyrst til að tryggja að Siglingastofnun Íslands geti, í samræmi við alþjóðasamþykktir sem Ísland er aðili að, gefið út alþjóðleg skírteini til íslenskra sjómanna sem starfa á kaupskipum. Mjög hefur borið á því að eftirlitsaðilar hafi komið um borð í kaupskip og gert við þetta athugasemdir. Íslenskir farmenn eru ekki komnir með alþjóðaskírteini og því liggur mjög á að afgreiða þessi lög.

Í öðru lagi vil ég koma aðeins inn á svokallaða öryggismönnun sem hér er rætt um. Mér þykir rétt að taka fram, svo að í Alþingistíðindi megi koma, að öryggismönnun sem ákveðin er af Siglingastofnun Íslands, þ.e. lágmarksfjöldi í áhöfn farþega- og flutningaskipa, er með þeim hætti að nú þegar eru til kjarasamningar farmanna sem kveða á um mannafjölda. Ég vil taka það fram svo það sé ljóst, að öryggismönnunin er lágmark en síðan hafa kjarasamningar auðvitað meira vægi en lögin þegar kemur að fjölda í áhöfn. Því má segja að ef Siglingastofnun gerir kröfu um þrjá vegna öryggisins en kjarasamningarnir hljóða upp á sex, þá hljóta auðvitað kjarasamningarnir að gilda.

Í þriðja lagi, varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á varðandi breytingarnar úr 50 í 65 brúttótonn, tek ég undir það með hv. þm. að við þurfum að skoða þetta aftur í haust. Þegar um er að ræða t.d. 65 brúttótonna dragnótaskip að veiðum eða fiskibáta með tröllauknum vélbúnaði, spilbúnaði og öðru, þá er okkur náttúrlega nokkur vandi á höndum. Þá hljóta að vera gerðar meiri menntunarkröfur til þeirra sem stjórna slíkum fiskiskipum en gert er í dag, miðað við hið gamla 30 tonna pungapróf. Það er mál sem bíður haustsins og við þurfum auðvitað að skoða það.

Ég legg áherslu á, eins og ég sagði í upphafi, að við þurfum að afgreiða þetta mál. Það liggur mikið við. Menntunarmálin eru ekki svo stórt atriði að þau standi í vegi fyrir samþykkt frv. Þau mál leysum við örugglega sameiginlega í hv. samgn. á haustdögum.