Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 16:29:15 (8361)

2001-05-19 16:29:15# 126. lþ. 129.24 fundur 627. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (EES-reglur) frv. 90/2001, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Við fengum til okkar gesti sem getið er um í þskj. 1302 og einnig bárust umsagnir. Þeirra er getið í sama skjali.

Með frumvarpinu er lagt til að Persónuvernd verði heimilað að ákveða og auglýsa í Stjórnartíðindum að hér á landi gildi gerðir Evrópubandalagsins, EB, á grundvelli 25. gr. tilskipunar frá 24. október 1995, nr. 95/46/EB, um að land utan EB teljist tryggja nægilega vernd í krafti laga sinna eða alþjóðaskuldbindinga um vernd friðhelgi einkalífs og grundvallarfrelsis og réttinda manna. Þá eru lagaskilaákvæði tilskipunarinnar gerð afdráttarlausari í frumvarpinu og lagt til að ákvæði laganna um öryggi við vinnslu persónuupplýsinga verði fyllri og endurspegli betur ákvæði tilskipunarinnar þar að lútandi. Loks er í frumvarpinu að finna ákvæði sem ætlað er að lögfesta almennt ákvæði 14. gr. tilskipunarinnar um andmælarétt hins skráða.

Mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin ástæðu til að tekið verði skýrar fram í lögunum hvenær ábyrgðaraðila er heimilt að afhenda félaga-, starfsmanna- eða viðskiptaskrár. Í öðru lagi lítur nefndin svo á að Persónuvernd eigi við sérstakar aðstæður að geta heimilað vinnslu almennra persónuupplýsinga eins og hún getur gert við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Þá telur nefndin ekki rétt að Persónuvernd setji Hagstofu Íslands fyrirmæli um gerð, notkun og innihald skráa sem Hagstofan heldur yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Því leggur nefndin til að Hagstofan setji sjálf slíkar reglur í samráði við Persónuvernd. Loks er gerð tillaga um orðalagsbreytingar og lagfæringar á texta laganna í samræmi við tilskipunina.

Þetta var samhljóða álit allshn.