Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:30:48 (8369)

2001-05-19 17:30:48# 126. lþ. 129.39 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál. 34/126, Frsm. KF
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Frsm. heilbr.- og trn. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn. um till. til þál. um heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Davíð Á. Gunnarsson og Ingimar Einarsson frá heilbr.- og trmrn., Þorgerði Ragnarsdóttur frá áfengis- og vímuvarnaráði, Helgu Jörgensdóttur frá Félagi íslenskra uppeldis- og meðferðarstofnana, Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Ólafsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Gunnar Sigurðsson frá Hjartavernd, Emil Thoroddsen og Einar S. Ingólfsson frá Gigtarfélagi Íslands, Ólaf Gunnarsson og Kristján Steinsson frá gigtarráði, Hauk Valdimarsson og Böðvar Örn Sigurjónsson frá Félagi íslenskra heimilislækna, Regínu Ásvaldsdóttur frá Miðgarði, sem er fjölskylduþjónusta í Grafarvogi, og Guðjón Ólafsson og Margréti Sigmarsdóttur frá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.

Umsagnir bárust nefndinni frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi, Félagi eldri borgara í Reykjavík, Gigtarfélagi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Geislavörnum ríkisins, Lyfjastofnun, Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, héraðslækni Norðurlands, Heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli, Félagi íslenskra tannfræðinga, Röntgentæknafélagi Íslands, héraðslækninum í Reykjavík, Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, tóbaksvarnanefnd, manneldisráði, Styrktarfélagi vangefinna, héraðslækni Suðurlands, samtökunum Lífsvog, umboðsmanni barna, Heilsugæslustöðinni á Akureyri, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, héraðslækni Austurlands, Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands, Barnageðlæknafélagi Íslands, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi, Vinnueftirliti Reykjavíkur, Læknafélagi Íslands, áfengis- og vímuvarnaráði, Barnaheillum, tannlæknadeild Háskóla Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, landssamtökunum Heimili og skóli, Umferðarráði, Akureyrarbæ, Krabbameinsfélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, gigtarráði, landlæknisembættinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Tillaga sú sem hér er til umræðu hefur að geyma metnaðarfulla áætlun í heilbrigðismálum til ársins 2010 en þó hefur verið leitast við að gæta raunsæis í markmiðssetningum. Reynt hefur verið að gera áætlunina þannig úr garði að markmið hennar séu mælanleg svo að hægt verði að meta framgang áætlunarinnar og þann árangur sem næst. Í þessu felst meginstyrkur tillögunnar og gerir það hana jafnframt frábrugðna þeirri heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi veturinn 1990--1991.

Á 51. alþjóðaheilbrigðisþinginu í maí 1998 var samþykktur rammi að stefnumörkun varðandi heilbrigði allra á 21. öld. Þar er lögð rík áhersla á að réttur til heilbrigðisþjónustu sé grundvallarréttindi hvers og eins, en auk þess eru skilgreind tiltekin markmið sem ætlað er að standa til ársins 2020. Svæðisstjórnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ríkisstjórnum aðildarríkjanna er síðan ætlað að útfæra stefnumörkunina, hverri á sínu starfssvæði.

Svæðisnefnd Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu hefur samþykkt heilbrigðisstefnu til ársins 2020 og er þar lögð áhersla á 21 heilbrigðismarkmið. Við gerð þeirrar heilbrigðisáætlunar sem hér liggur fyrir var ákveðið að afmarka sérstaklega sjö forgangsverkefni til ársins 2010 en að öðru leyti mynda markmið Evrópuáætlunar WHO megingrunn áætlunarinnar.

Íslenska áætlunin sem hér liggur fyrir spannar vítt svið en ákveðnum sjö sviðum er skipað í forgang. Þau eru: áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, börn og ungmenni, eldri borgarar, geðheilbrigði, hjarta- og heilavernd, krabbameinsvarnir og slysavarnir.

Nefndin tekur undir og styður framangreind forgangsverkefni áætlunarinnar sem og önnur markmið hennar. Nefndin vill þó jafnframt vekja athygli á nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi hefur sá áratugur sem nú er hafinn verið nefndur áratugur beina og liða samkvæmt verkefni sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin styður. Gigtarsjúkdómar eru vaxandi vandamál og kostnaður þjóðfélagsins af þeim mikill. Nefndin hvetur því til þess að baráttan gegn þessum sjúkdómum verði efld og leggur í samræmi við það til að gigtarsjúkdómar verði nefndir sérstaklega í 3. tölulið markmiðs 8 í áætluninni, þó segja megi að hugtakið stoðkerfisvandamál sem þar er nefnt taki einnig til þeirra.

Offita og aðrar átraskanir færast í vöxt og telur nefndin mikilvægt að spornað verði gegn þeim með öllum ráðum. Aukin offita barna er sérstakt áhyggjuefni. Markmið 11, sem fjallar um heilbrigðari lífshætti, lýtur að þessu og leggur nefndin áherslu á að því markmiði verði fylgt fast eftir.

Í áætluninni er kveðið á um jafnræði til heilbrigðis. Nefndin vekur athygli á rétti nýbúa í því sambandi. Mikilvægt er að gæta þess að þeir fái notið sama réttar og aðrir. Ástæður eins og vanþekking á íslensku samfélagi, ólíkar hefðir og tungumálaerfiðleikar geta leitt til þess að þeir fái minni heilbrigðisþjónustu og við því verður að bregðast.

Eins og fram hefur komið er áætlunin og markmið hennar sett þannig fram að raunhæft eigi að vera að ná þeim fyrir árið 2010. Ljóst er að metnaður manna, þar á meðal nefndarinnar, nær miklu lengra, en raunsæis verður að gæta. Nefndin vill engu að síður vekja athygli á forgangsverkefni 2.a í áætluninni þar sem segir að unnið skuli að því að jafna mun á heilsufari barna sem tengist þjóðfélagsstöðu foreldra um 25%. Nefndin telur að hér sé raunhæft að stefna hærra og hvetur því til þess að lögð verði áhersla á þetta forgangsverkefni svo að komast megi sem næst því að eyða þessum mun.

Ljóst er að á sumum sviðum verða auknar fjárveitingar nauðsynlegar til að markmið náist. Nefndin vekur þó athygli á því að við gerð áætlunarinnar var gerð sérstök kostnaðar- og ábatagreining og var meginniðurstaðan sú að verði markmiðum áætlunarinnar náð ætti að vera mögulegt að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði sem nemur á bilinu 7,5--15 milljörðum króna árlega. Til lengri tíma litið ætti því að nást fram sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

Nefndin telur að enn séu miklir möguleikar á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Huga verður að skipulagsbreytingum innan kerfisins með stórauknu samstarfi og samráði fagstétta innan heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og félagslega kerfisins. Nefndin álítur að miklum árangri megi ná með því að tvinna þessa þætti saman þannig að þeir styðji hver annan.

Brýn þörf er á því að efla grunnheilbrigðisþjónustu og skilgreina nánar hlutverk einstakra þátta hennar. Víðast hvar í hinum vestræna heimi er heilsugæslunni ætlað að sinna allri grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu og er einnig svo hér á landi. Samkvæmt markmiði 15 er að því stefnt að árið 2010 eigi fólk á Íslandi betri aðgang að fjölskyldu- og samfélagsmótaðri heilsugæslu með sveigjanlega og virka sjúkrahúsþjónustu að bakhjarli. Markmiðum heilbrigðis\-áætlunar verður ekki náð nema tryggt sé að fólk eigi greiðan aðgang að grunnþjónustu. Grípa þarf til ýmissa aðgerða til að þetta náist. Efla þarf heilsugæsluna og auka áhuga unglækna á heimilislækningum. Virkja þarf aðrar fagstéttir innan heilbrigðiskerfisins til starfa innan heilsugæslunnar í auknum mæli og má þar sérstaklega nefna hjúkrunarfræðinga, fjölskylduráðgjafa, sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara o.fl. Margvísleg rök mæla með því að efla heilsugæsluna sem undirstöðu heilbrigðisþjónustunnar í landinu og verða fáein dæmi nefnd því til stuðnings.

Sýnt hefur verið fram á að vel starfhæf heilsugæsla leiðir til minni ásóknar í sjúkrahúsþjónustu, sem og aðra heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, sem aftur leiðir til lækkunar á heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustu.

Talið hefur verið að 80--85% íbúa hvers lands gætu fengið þörf sinni fyrir heilbrigðisþjónustu fullnægt innan heilsugæslunnar ef næg þjónusta stæði til boða. Fólk er ánægðara með heilbrigðiskerfið í heild virki heilsugæslan vel.

Þjónusta við sjúklinga á heilsugæslustöðvum er jafnan ódýrara úrræði en sambærileg þjónusta á sjúkrahúsum eða hjá sérgreinalæknum. Heilbrigðisþjónusta er að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og því stendur ekki til að breyta. Hins vegar ber okkur skylda til að gera það sem til þarf til að kostnaður þjóðfélagsins verði sem minnstur án þess að þjónustan sé skert. Efling heilsugæslunnar svo að hún fái sinnt grunnþjónustu fyrir alla landsmenn, eins og hún er skilgreind í 19. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, er að mati nefndarinnar sá þáttur sem er líklegastur til að skila þjóðfélaginu mestu í þessu sambandi um leið og það mundi styðja flest markmið heilbrigðisáætlunarinnar.

Nefndin leggur mikið upp úr því að hvers kyns forvarnastarf verði eflt enda skapa forvarnir árangur til framtíðar og því hljóta þær að gegna miklu hlutverki í heilbrigðisáætlun þar sem horft er tiltölulega langt fram í tímann. Gera þarf fólk betur meðvitað um eigin ábyrgð í þessu efni. Heilbrigði og að sama skapi óheilbrigði er oftar en ekki áunnið ástand, þótt svo sé alls ekki í öllum tilvikum, og því nauðsynlegt að brýna gildi heilbrigðra lífshátta fyrir fólki.

Hagræðing, samstarf og forvarnir eru, í samræmi við framangreint, lykilhugtök að mati nefndarinnar og forsenda þess að varanlegur árangur náist með bættri lýðheilsu í víðasta skilningi þess orðs.

Afar mikilvægt er að allir sem með einum eða öðrum hætti koma að þeim þáttum sem áætlun þessi lýtur að hafi markmið hennar ávallt í huga. Ljóst er að kynna þarf áætlunina vel og tryggja að tekið sé mið af henni við einstakar ákvarðanir sem teknar eru og jafnframt að markmið hennar fái að þróast eftir því sem fram vindur. Grundvallaratriðið er þó að áætlunin njóti stuðnings þeirra sem eiga að vinna eftir henni, þar með talið heilbrigðisstarfsmanna og notenda heilbrigðisþjónustunnar, og er það von nefndarinnar að svo verði.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með fáeinum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið skrifa allir í heilbr.- og trn. en Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Karl V. Matthíasson og Lára Margrét Ragnarsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.

Brtt. eru lagðar fram á sérstöku skjali en fela ekki í sér efnislegar breytingar á áætluninni heldur nánari skýringar.