Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 17:57:05 (8374)

2001-05-19 17:57:05# 126. lþ. 129.16 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv. 73/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[17:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. um frv. til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi skrifaði ég upp á það með fyrirvara. Fyrirvarar mínir lúta í megindráttum að sömu atriðum og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert grein fyrir.

Það sem ég vil vekja athygli á er að í vinnslu hefur verið samræmd samgönguáætlun og því var lofað á sl. vetri að hún mundi þá koma fljótlega fram, þ.e. fyrir ári á síðasta þingi. Sú samræmda samgönguáætlun hefur ekki enn komið fram. Hins vegar hafa verið kynnt drög að henni eða fyrstu tillögur að þeirri áætlun í samgn. Eðlilegra hefði verið, herra forseti, að sú samræmda samgönguáætlun hefði legið fyrir og síðan væri verið að vinna sig út frá henni í að breyta í veigamiklum atriðum um ekki aðeins stjórnsýslu heldur ýmislegt í fyrirkomulagi þessarar þjónustu því að stjórnsýslulega er verið að flytja þennan málaflokk frá skrifstofu samgrn. og til Vegagerðarinnar. Það er í sjálfu sér heilmikil breyting og fleiri breytingar sem þarna er verið að gera á þannig að eðlilegt hefði verið að þetta hefði verið hluti af samræmdri samgönguáætlun sem hefði átt að liggja fyrir og þetta frv. síðan koma í kjölfarið.

Bæði efnisflutningar úti um land og fólksflutningar eiga alvarlega undir högg að sækja. Ýmiss konar kostnaður er við flutninga, olíukostnaður, skattar og margvísleg gjöld sem eru á bæði efnisflutningum og fólksflutningum úti um land og sérleyfishafar sem halda uppi áætlunarferðum úti um land eiga í miklum erfiðleikum. Hver leiðin á fætur annarri er í mikilli hættu að lokast bæði vegna rekstrarörðugleika og eins vegna þess að brýn nauðsyn er að endurskoða það skipulag sem þessi þjónusta fer eftir.

Ég vil leggja áherslu á það sem mér finnst ekki koma nógu skýrt fram í frv. að það hefði átt að leggja áherslu á að samgöngur sem þessar eru almannasamgöngur, þetta er ekki beint atvinnurekstur, þetta er þjónusta og þarf að taka tillit til þess. Það er að vísu gert á ákveðnum stöðum þar sem gert er ráð fyrir því að enn megi gera samninga og eins konar sérleyfi verði áfram þannig að reynt verði að tryggja áframhaldandi grunnþjónustu í fólksflutningum. Því miður vantar endurskoðun á skipulagi á þessu almannasamgöngukerfi í landinu.

Herra forseti. Einnig er óeðlilegt að láta þessa almannaþjónustu og þennan rekstur standa sjálfan undir margvíslegum umsýslukostnaði því að hann hlýtur að leggjast á neytendur þessarar þjónustu sem verða fyrst og fremst íbúar úti um hinar dreifðu byggðir landsins, þeir sem nýta sér fólksflutninga með þessum hætti og eins vöruflutninga og efnisflutninga. Mér finnst að þarna hefði átt að gæta miklu meira hófs í gjaldtöku á þeirri þjónustu sem hér um ræðir. Óeðlilegt er að við séum að samþykkja gjöld á hverja þjónustugreinina á fætur annarri og hún eigi að standa undir umsýslugjöldum sínum, það getur ekki annað en bitnað á þeim sem eru þar neytendur og sem eru sérstaklega íbúar í hinum dreifðu byggðum.

Herra forseti. Þetta eru fyrirvarar mínir. Ég vil líka vekja athygli á, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði hér, að þessi gjöld eiga að renna inn til Vegagerðar ríkisins og þar er greinilega verið að stofna nýtt apparat. Þarna er greinilega verið að búa til eins konar nýja stofnun eða nýtt apparat eða deild hjá Vegagerðinni sem á að hafa með höndum fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga og ef líka verður að lögum frv. til laga um leigubifreiðar, sem einnig á að fara þar inn, þá er þar verið að búa til stærðarapparat sem tekur bæði til sín mannafla og fjármagn, svona eftirlitsiðnað. Eftirlitsiðnaðurinn virðist alltaf tútna út á þessum sviðum sem öðrum. Kannski væri vel við hæfi að hæstv. samgrh. hlutaðist svo til um að þessari nýju stofnun eða þessari nýju deild, sem verið er að stofna til hjá Vegagerðinni, verði þá fundinn t.d. staður einhvers staðar úti á landi þar sem þetta er eiginlega nýtt viðfangsefni og mundi þess vegna ekki þurfa að segja upp fólki vegna flutnings heldur er verið að byggja upp nýtt viðfangsefni því að þetta er að stóru leyti bara eftirlitsiðnaður sem þarna er verið að byggja upp og væri ástæða til þess að huga að því.

Þá kemur heldur ekki fram hvað samgrn. sparar við að flytja verkefnið frá samgrn. til Vegagerðarinnar en það hefði átt að fylgja með og væntanlega sjást þess þá merki í fjárlagatillögum samgrn. þegar það kemur til skoðunar á næsta hausti.

Ég ítreka, herra forseti, að margt er gott í þessu frv. og breytingar sem eru gerðar á því eru flestar til bóta en ég vísa til þeirra fyrirvara og athugasemda sem ég hef gert.