Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:11:55 (8378)

2001-05-19 18:11:55# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, JB
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir nál. og brtt. sem flutt eru við hafnaáætlun árin 2001--2004. Ég rita undir nál. með fyrirvara. Fyrirvarar mínir lúta að ákveðnum atriðum.

Einn fyrirvarinn er sá að eðlilegt hefði verið að samræmd samgönguáætlun hefði legið fyrir þegar verið var að gera hafnaáætlun til svo langs tíma eins og hér greinir. Ég ítreka að afar nauðsynlegt er að þessi samræmda samgönguáætlun komi sem fyrst fram þannig að hægt sé að vinna hvort sem það er hafnaáætlun, áætlun um fólksflutninga eða vöruflutninga á landi eða flutninga á sjó eða í lofti og það komist á hreint áður en í óefni verður komið á sumum þjónustuleiðum hvað þetta varðar.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, herra forseti, að mörg sveitarfélög eru þannig fjárhagslega sett að þau hafa ekki getað ráðist í þær framkvæmdir sem þau hafa þó ætlað vegna þess að þau hafa ekki haft efni á að leggja fram mótframlög sín sem krafist er eða þau eru skuldbundin til í hafnarframkvæmdum hjá sér. Sú staða sem mörg sveitarfélög eru einmitt í hlýtur að valda áhyggjum, þ.e. að geta ekki staðið við eðlilega uppbyggingu og viðhald á höfnum sínum sem eru margar hverjar bæði lífæðar í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga, heldur verða þau ítrekað að fresta framkvæmdum vegna eiginfjárskorts þó svo að framlag ríkisins sé til reiðu.

Þetta tel ég, herra forseti, að eigi að skoða, það eigi að skoða nákvæmlega hvernig sú staða er hjá sveitarfélögunum að takast á við þessi verkefni sín svo fullnægjandi sé.

Annað fyrirbæri lýtur að því að í brtt. er lagt til að undir liðnum Fjarðabyggð bætist við nýtt verkefni sem beri fyrirsögnina ,,Hraun Reyðarfirði -- Höfn fyrir stóriðju.`` Þessi breyting mun leiða til hækkunar á ríkishluta nýframkvæmda í fyrsta kafla áætlunarinnar. Með leyfi forseta les ég upp hluta af tillögunni:

,,...undir liðnum Fjarðabyggð, árið 2002 um 60,5 millj. kr., 337,6 millj. kr. árið 2003 og 68,4 millj. kr. árið 2004 eða alls 466,5 millj. kr.``

Það er í sjálfu sér afar ánægjulegt að leggja í framkvæmdir við að byggja upp hafnir vítt og breitt um landið, þannig að það er í sjálfu sér, ef litið er á það afmarkað, mjög gott verkefni. Hins vegar, herra forseti, er því beitt sem röksemd fyrir þeirri höfn sem fæst þar að þetta sé höfn fyrir stóriðju á Reyðarfirði. Því vil ég benda á að ekki liggur fyrir nein ákvörðun um stóriðju á Reyðarfirði. Að vísu er verið að vinna að ýmsum áætlunum þar að lútandi en þar eru flestir þættir í fullkominni óvissu og því algjörlega ótímabært að setja það inn á hafnaáætlun merkta undir höfn fyrir stóriðju. Ég geri athugasemd við þetta.

Eins vil ég minnast 6. lið í þessum tillögum sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lagt er til nýtt verkefni undir liðnum Vestmannaeyjar sem beri fyrirsögnina ,,Þurrkví``. Um er að ræða þurrkví við hlið skipalyftunnar á Eiðinu. Heildarkostnaður er áætlaður 360 millj. kr. og er hlutur ríkisins 60% eða 216 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessi upphæð verði greidd með fjórum jöfnum afborgunum á árunum 2002--2005. Til greiðslu úr ríkissjóði á áætlunartímabilinu koma því um 162 millj. kr.``

Ég ítreka að það er mjög lofsvert og mikilvægt að styrkja hafnarmannvirki alls staðar á landinu og því fer fjarri að hægt sé í þessari hafnaáætlun að bregðast við öllum þeim þörfum og öllum þeim óskum og nauðsynjum, afar brýnum, sem eru til að koma þessu máli í gott lag víða um land. En þarna hefur verið sett og kynnt ákveðin forgangsröðun sem Siglingastofnun hafði gert við undirbúning þessa verks. Þessi liður, ,,Þurrkví``, var þá ekki hluti af þeirri forgangsröðun sem hafði verið kynnt af Siglingastofnun og þessi beiðni eða tillaga kom fram mjög seint eða eiginlega í lok afgreiðslu nefndarinnar á málinu þannig að ekki gafst tími til að óska eftir áliti Siglingastofnunar á því hvar í röðina þetta verkefni ætti að fara miðað við önnur verkefni sem óskir voru um og ekki var hægt að taka inn á áætlun.

Ég vil láta það í ljós, herra forseti, að ég tel að vinnan við hafnaáætlunina eins og hún hefur verið gerð hafi verið góð, ég tel þetta mjög gott vinnulag en fylgja eigi því alveg til enda þannig að þau verkefni sem koma inn til viðbótar í meðförum nefndarinnar eigi jafnframt að fá umsögn Siglingastofnunar og þá geti nefndin metið ásamt Siglingastofnun þá forgangsröðun, ef meira fjármagn er til ráðstöfunar og er bara allt gott um það að segja ef meira fjármagn er til ráðstöfunar til hafnarframkvæmda.

Ég geri engar athugasemdir við það þó að þarna sé gert ráð fyrir þessu til Vestmannaeyja að öðru leyti, ég geri ráð fyrir að þetta sé afar brýn og góð framkvæmd sem þarna er verið að huga að en tel að þetta eigi að fylgja að öðru leyti þeim almennu reglum sem beitt er og farið er eftir við gerð hafnaáætlunar.

Herra forseti. Ég vona að sveitarfélögin vítt og breitt um landið hafi fjármagn til að leggja á móti og takast á við þau verkefni sem hér er lagt til að þau fái, en ég veit að þau þyrftu enn meira fjármagn til.