Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:30:37 (8380)

2001-05-19 18:30:37# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og glöggt má sjá af hafnaáætluninni eru nær eingöngu framlög vegna fiskihafna. Þróunin hjá okkur í flutningum á landinu og með ströndinni hefur verið sú að nánast allir flutningar innan lands hafa verið að færast á vegina og vöruhafnirnar hafa orðið í langstærstum þáttum tvær á Íslandi, þ.e. Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn. Raunar fara nokkrir flutningar um Akureyrarhöfn en þar á hefur orðið heilmikil breyting.

Það skýrir fyrst og fremst hvers vegna ekki er fjárveiting til uppbyggingar vöruhafnarinnar í Hafnarfirði umfram Reykjavíkurhöfn. Við getum ekki gert upp á milli þessara tveggja hafna, Reykjavíkurhafnar og Hafnarfjarðarhafnar, sem eru að keppa um vöruflutningana. Í ljósi þess að sú þróun hefur orðið hjá okkur, hvort sem okkur þykir það gott eða vont, að flutningarnir hafa farið á landið og síðan milli landa um Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn verðum við að gæta jafnræðis. Ég vil beina orðum mínum til jafnaðarmannsins Guðmundar Árna Stefánssonar sérstaklega: Finnst honum eðlilegt þegar aðallega er um tvær útflutningshafnir að ræða á Íslandi að önnur fái ríkisstyrk en hin ekki? Ég segi nei.