Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:36:58 (8383)

2001-05-19 18:36:58# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir með hæstv. samgrh., það ber að styðja skipasmíðaiðnaðinn og skipaviðgerðir á alla lund. En það verður að gera það samkvæmt eðlilegum leikreglum. Það er það sem hefur ekki gerst og það er það sem ég vil leiðrétta þannig að menn njóti sannmælis og jafnræðis í þeim efnum.

Hins vegar ætla ég ekki að elta ólar við þetta, herra forseti. Ég ætla bara að rifja upp litla sögu frá fyrri tíð.

Ég sagði það áðan í fyrra andsvari mínu að hæstv. ráðherra hefði á árum áður verið formaður Hafnasambandsins, Sambands íslenskra hafna, og hann var einnig sveitarstjóri í Stykkishólmi. Það er ekkert launungarmál og ég man þá tíma ósköp vel og hæstv. ráðherra gerir það líka, að á þessum Hafnasambandsþingum og þegar menn voru hér að reyna að ná samkomulagi um svona mat í hafnaáætlun gerðist það gjarnan og það var mikill þrýstingur í þá veru á milli dreifðari byggða, dreifðari hafna eða úti í dreifbýlinu, og Reykjavíkurhafnar að koma Hafnarfirði út. Ég man að ég sem bæjarstjóri í Hafnarfirði stóð í miklu stappi út af þessu.

Það tókst ekki þá en það var ekki fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar sem menn létu höggið ríða. Auðvitað fylgdumst við með því í Reykjaneskjördæmi, í hinu nýja Suðvesturkjördæmi, hvernig horft var til þessara sveitarfélaga eins og þau væru annars flokks. Það er kjarni málsins og með því verður fylgst.