Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:40:42 (8385)

2001-05-19 18:40:42# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var alveg ástæðulaust af hálfu hv. þm. Árna Johnsens að setja á varnarræðu vegna upptökumannvirkja í Vestmannaeyjum. Ég tók það þráfaldlega fram að ég gerði engar athugasemdir við þá tillögu og styddi hana. Því eru engin efni til þess að halda því fram að ég hafi verið að gera þá tillögu tortryggilega á einn eða annan veg.

Það sem ég sagði var að það væri eðlilegt með jöfnuð í huga að eitt og hið sama ætti yfir alla að ganga. Það er kjarni máls. Ég hugsa að ég þekki hugtökin jöfnuður og jöfnunaraðgerðir ekkert síður en hv. þm., en menn gera það bara ekki eftir geðþótta. Menn gera það eftir fyrirskrifuðum leikreglum og með kalt höfuð og heitt hjarta.

Staðreyndin er nú sú, herra forseti, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að kannski hefur þetta samspil ríkis og sveitarfélaga varðandi hafnargerð gert það að verkum að of mörg slys hafa orðið varðandi hafnargerð í gegnum árin. Menn hafa verið að ráðast í fjárfestingar sem hefur ekki verið nógu mikið vit í. Ég ætla ekki að fara að rekja hér dæmi, menn þekkja þau hringinn í kringum landið.

Einmitt af því að hæstv. ráðherra nefndi það áðan að nú væri aðaláherslan á fiskihafnir þá þekkjum við það til að mynda af Norðurlandi þar sem miklir fjármunir fóru einmitt í að reisa viðlegukanta og fara í umfangsmikla dýpkun vegna stærri skipa, vegna strandflutninga, sem síðan ekkert varð úr. Þar liggja óbættir hjá garði sennilega tugir eða hundruð milljóna króna. Einmitt þetta samspil hygg ég að hafi orðið til að menn hafi stundum ráðist í framkvæmdir sem þeir hefðu ella ekki ráðist í. Það er sennilega hin kalda og nöturlega staðreynd málsins.

Kjarni málsins er sá að ef menn ætla að beita tækjum til jöfnunar verða þau tæki að vera gagnsæ og þau verða að lúta lögmálum réttlætis.