Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:42:46 (8386)

2001-05-19 18:42:46# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég sit í hv. samgn. og við afgreiðslu á hafnaáætlun sem lá fyrir nefndinni og var þar til meðferðar, sem er að mínu mati metnaðarfull hafnaáætlun þar sem verið er að reyna að taka á mörgum þáttum og það er vel, þ.e. ef menn eru sáttir og sammála þessu fyrirkomulagi sem hafnaáætlunin byggist um. Ég ætla kannski síðar að fá að leyfa mér að efast um að þetta sé akkúrat rétta fyrirkomulagið.

Í ljósi þessa þá gerði ég fyrirvara við þessa hafnaáætlun og það er tvennt sem ég vil sérstaklega gera fyrirvara við. Í fyrsta lagi segir í 6. lið áætlunarinnar:

,,Lagt er til nýtt verkefni undir liðnum Vestmannaeyjar sem beri fyrirsögnina ,,Þurrkví``. Um er að ræða þurrkví við hlið skipalyftunnar á Eiðinu. Heildarkostnaður er áætlaður 360 millj. kr. og er hlutur ríkisins 60% eða 216 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessi upphæð verði greidd með fjórum jöfnum afborgunum á árunum 2002--2005. Til greiðslu úr ríkissjóði á áætlunartímabilinu koma því um 162 millj. kr.``

Sem sagt u.þ.b. 53 millj. á ári í hafnaáætlunina. Ég get í rauninni tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hér áðan, að það er gott og vel og það þarf að byggja upp hafnirnar, við getum öll verið sammála um það, en ef við lítum nú þegar til þess skipaiðnaðar sem er í landinu þá er hann núna á tveimur stöðum. Það er flotkví í Hafnarfirði, tvær flotkvíar, stór og lítil, sem hafa ekki verið ríkisstyrktar að einu eða neinu leyti, og síðan er skipakví fyrir norðan sem hefur notið ríkisstyrkja.

En ef maður lítur einfaldlega á skipaiðnaðinn í heild þá leyfi ég mér að efast um að rétt sé að fara út í hreina og beina ríkisstyrkta skipakví. Það vilja allir styðja við hvort sem það eru Vestmannaeyjar eða aðra bæi landsins en ég leyfi mér hins vegar að efast um að rétt sé að fara þessa leið, að koma í rauninni á fót ríkisstyrktum skipaiðnaði í Vestmannaeyjum.

[18:45]

Að þessu lýtur fyrri fyrirvari minn, herra forseti. Ég hef til að mynda ekki séð neina rekstraráætlun með hafnaáætluninni og í tengslum við þessa þurrkví í Vestmannaeyjum eins og í raun segir til um í lögum um opinberar framkvæmdir, að fyrir eigi að liggja m.a. fjárhagsáætlun, annars vegar hvað fer í fjárfestingar og hins vegar í rekstur. En þetta er held ég það sem þarf þá að huga betur að að mínu mati.

Þegar þessu breytta fyrirkomulagi á hafnaáætlun var komið á á sínum tíma var ein meginröksemd þess að hafnir á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega og síðan fyrir sunnan höfuðborgina, Kópavogur og Garðabær, fengu ekki þessa styrki, að samkeppni á höfuðborgarsvæðinu hefði leitt til nægjanlegs framboðs á hafnarmannvirkjum til að leysa þarfir viðskiptavina. Það er kannski gott og blessað. Ég er einfaldlega ekki sammála þessari fullyrðingu og að hægt sé að réttlæta þetta þegar litið er yfir þetta svæði, Reykjavík og síðan þessar hafnir fyrir sunnan borgina. Við skulum átta okkur aðeins á fjárhæðunum, herra forseti. Fjárhæðirnar sem við erum að tala um samkvæmt hafnaáætlun og þeim breytingum sem síðan hafa gerðar á henni eru töluverðar. Hlutur ríkisins er a.m.k. 5 milljarðar og kominn vel yfir 5 milljarða eða 5.000 millj. kr. Hvað fara margar krónur einmitt á þetta svæði hér? Hvað fara margar krónur á hafnaáætlun næstu ára á þetta svæði? Engin króna.

Herra forseti. Þegar verið er að tala um samræmda samgönguáætlun og að litið verði heildstætt á málin þá verð ég að segja að þetta geti engan veginn samræmst þeirri hugsun. Þá komum við einmitt að þeirri röksemd að samkeppni á höfuðborgarsvæðinu hafi leitt til þess að nægilegt framboð sé af hafnarmannvirkjum á svæðinu. Ég er eindregið sammála því sem hefur komið fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að engan veginn sé hægt að bera saman Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn, og hvað þá Kópavogshöfn, og setja þær allar undir sama hattinn. Í mínum huga gengur það ekki upp.

Af hverju gengur það ekki upp? Nú, ef bara er litið á samanburð á tekjum hafna á árinu 1999 þá er Reykjavíkurhöfn með 39% af heildartekjum hafna. Hafnarfjörður er með rúmlega 7%. Síðan koma aðrar hafnir eins og Hafnasamlag Norðurlands með 5,5% og Vestmannaeyjar með rúmlega 5%. Ég sé ekki að það mikill munur sé t.d. á Hafnarfirði og Hafnasamlagi Norðurlands eða Vestmannaeyjum að hann geti réttlætt það að segja bara: Út með Hafnarfjörð. Út með Kópavog. Þetta er allt undir sama hattinum og á að fylgja Reykjavík.

Ef við skoðum tekjuskiptinguna þá hefur verið nefnt að Hafnarfjörður væri líka vöruflutningahöfn alveg eins og Reykjavík. Það er rétt. Hafnarfjörður er vöruflutningahöfn. En hún er ekki alveg eins og Reykjavík því að Hafnarfjörður byggir tekjur sínar, veltu, mjög mikið á aflagjöldum. En hvað er prósentuhlutfall af aflagjöldum í Reykjavík hátt? 5%. Hlutur aflagjalds í Reykjavík er 5%.

Ég ætla ekki að fara út í það að öðru leyti að ræða beint Reykjavík hér. Það sem skiptir máli er að Hafnarfjörður er að mínu mati ekki í beinni samkeppni við Reykjavík heldur við aðrar hafnir á landinu öllu. Því tel ég að mjög erfitt að rökstyðja það að ekki fari króna af þessum 5.000 milljónum á þetta svæðir.

Síðan er í Kópavogi allt önnur tegund af höfn og náttúrlega engan veginn samanburðarhæf við Reykjavík í samkeppni. Það er bara allt önnur tegund af höfn og hafnarstarfsemi sem þar fer fram. Það hallar mjög á Kópavogsbúa sem hafa verið að byggja þarna upp ákveðna tegund af hafnarmannvirkjum. Því er ekki hægt að setja hana undir þann sama hatt sem um er sagt að samkeppni á höfuðborgarsvæðinu hafi leitt til þess að nægjanlegt framboð sé á hafnarmannvirkjum til þess að leysa þarfir viðskiptavina, punktur, basta.

Herra forseti. Fyrirvarar mínir lúta því að þessu. Þegar ég skoða þetta í heild og lít yfir þá fyrirvara sem ég hef verið að setja þá hlýt ég að spyrja mig: Er þetta rétta leiðin til þess að byggja upp hafnirnar? Ég leyfi mér að efast um að þetta sé akkúrat rétta leiðin. Ég vil hvetja hæstv. samgrh. til þess að drífa í endurskoðun á hafnalögum. Í nál. segir m.a. og það hefur verið upplýst að ætlunin sé að leggja fram ný hafnalög í haust. Þá sé ég fyrir mér mun meira frelsi, m.a. í gjaldskrám á milli hafna. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir þessar stóru hafnir að aukið frelsi verði leyft í gjaldskrám hafna.

Síðan er hitt atriðið að ég held að það sé líka mikilvægt, herra forseti, að kanna hvort ekki sé hægt að fá virðisaukaskatt sem er greiddur af framkvæmdum við hafnarmannvirki felldan niður eða endurgreiddan. Ég vil geta þess að við uppbyggingu síðustu ára, m.a. á öldubrjótnum í Hafnarfirði, hafa verið greiddar 200--230 millj. kr. í virðisaukaskatt í ríkiskassann.

Ég held að ég hafi gert grein fyrir því af hverju ég setti fyrirvara við þessa hafnaáætlun, herra forseti.