Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:53:50 (8387)

2001-05-19 18:53:50# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, Frsm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:53]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta misskilning hjá síðasta hv. ræðumanni sem benti á að skipasmíðar og skipaviðgerðir væru bara á tveimur stöðum á landinu. Það er mikill misskilningur og er ástæða til að hvetja hv. þm. til þess að kynna sér skipasmíðastöðvar á landinu öllu.

Það eru til að mynda skipasmíðastöðvar á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Akranesi, Njarðvík, svo nokkrir helstu staðirnir séu nefndir. (Gripið fram í: Stykkishólmi.) Já, Stykkishólmi og víðar. Þetta eru góðar skipasmíðastöðvar. Þetta er spurning um að gefa þeim sem eru í eigu viðkomandi sveitarfélaga og hafna færi á að halda sér við og endurnýja á eðlilegan hátt. Þetta kemur ekkert því við hvort verið er að tala um ríkisstyrki til ákveðinna verkþátta. Þetta eru mannvirki sem eru í eigu viðkomandi sveitarfélaga og því hluti af búskap landsins. Ég vil biðja hv. þm. að taka tillit til þess í málflutningi sínum.