Hafnaáætlun 2001--2004

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 18:59:22 (8393)

2001-05-19 18:59:22# 126. lþ. 129.18 fundur 327. mál: #A hafnaáætlun 2001--2004# þál. 28/126, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það að deila má um það að þær hafnir sem hér hafa verið nefndar fái ekki fjármagn. Það breytir ekki hinu að alltaf verður vandmeðfarið að útdeila þessu fé.

En í raun er kannski ekki við þann sem hér stendur að sakast því að fyrst og fremst erum við hér að tala um stefnu ríkisstjórnarinnar. Fyrrv. hæstv. samgrh. byrjaði á því að þessar hafnir fengju ekki framlög. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁS): Nei, nei, nei.)

Og sá sem nú situr heldur þessu áfram. Ég ætla því ekki að setja mig í þau spor að verja hér stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og ef hv. þm. er henni ósammála þá getur hann látið það koma fram í atkvæðagreiðslu.